Fjárlög 1993

88. fundur
Mánudaginn 21. desember 1992, kl. 17:42:53 (4039)

     Steingrímur J. Sigfússon :
    Hæstv. forseti. Það er satt best að segja afar sérkennilegt að hlýða á hæstv. heilbrrh. blóðugan upp að öxlum úr niðurskurði í velferðarmálum koma hér í pontuna og réttlæta og mæla með þessari fjárveitingu til uppbyggingar á Blönduóski. Ég hygg að flestra manna mál sé það að þetta sé ekki í hópi brýnustu forgangsverkefna sem til útgjalda horfa hjá íslenska ríkinu eins og nú árar. Staðreyndin er auðvitað sú að hér er verið að leggja út í alldýra framkvæmd sem verður ekki innan við 200 millj. fullkláruð að mínu mati, mun veita Blönduósbúum afar takmarkaða úrlausn í sínum hafnarmálum, því miður, vegna þess að aðstæður eru einfaldlega þannig við Blönduós að þar er óhemjudýrt að byggja fullkomna höfn. Það er því veruleg hætta á því að menn muni sjá að þessi áfangi upp á 150--200 millj., kalli á enn frekari framkvæmdir ef hann eigi að gera fullboðlegan. Það er kannski það lakasta við það að halda af stað í þessari óvissu með þessa framkvæmd. Það er enn fremur mjög dapurlegt að ekki skuli takast þrátt fyrir allt umtal um samstarf sveitarfélaga og sameiningu þeirra jafnvel sem á nú að leysa allan vanda í dag að koma á þeirri samvinnu um nýtingu hafnarmannvirkja við austanverðan Húnaflóa sem þarna blasir við að er öllum aðilum hagstæð. Tilraunir til að koma slíkri samvinnu á með einhverjum skipulögðum hætti hafa því miður ekki borið árangur enn þá. Það er alveg ljóst að ákvörðun Alþingis um fjárveitingu af þessu tagi bindur enda á slíkar tilraunir a.m.k. í bráð. Ég held og er þeirrar skoðunar að enn sé ekki tímabært að dæma þann möguleika af að byggðarlögin við austanverðan Húnaflóa nái að leysa með samstarfi sín í milli þessi mál með hagfelldari hætti, bæði fyrir sjálf sig og svo ekki sé nú talað um þjóðarbúið. Ég greiði þessari tillögu því ekki atkvæði. Í raun og veru tel ég þessa fjárveitingu óskynsamlega en mér er það í sjálfu sér ljóst að Blönduósbúar hafa ekki fyrirgert rétti sínum frekar en önnur byggðarlög í landinu til að fá úrlausn sinna mála og hef því ekki skap í mér til þess að greiða atkvæði gegn þessu.