Afstaða Spánar til EES-samningsins

88. fundur
Mánudaginn 21. desember 1992, kl. 18:32:49 (4059)

     Hjörleifur Guttormsson :
    Virðulegur forseti. Mín beiðni til forseta varðar einmitt störf þingsins og það mjög náið þar sem þetta mál sem við erum að ræða um hér snertir þinghaldið út frá sjónarhóli ríkisstjórnarinnar.
    Ég vil vekja athygli á því að hæstv. ráðherra var að greina frá því hér áðan að í rauninni hefðu það verið EFTA-ríkin sem væru að krefjast endurupptöku máls með því að vilja ekki greiða þegjandi og hljóðalaust hlut Sviss í þróunarsjóð til Evrópubandalagsríkjanna. Þetta segir okkur að staðhæfingar ráðherrans hér að undanförnu, á þingi og utan þings, um það að aðeins væri um tæknilegar leiðréttingar að ræða en ekki efnisleg átök, hafa ekki byggt á neinu samkvæmt einmitt því sem hæstv. ráðherra er að láta liggja að hér. Þannig að hann er kominn gersamlega í hring í málflutningi sínum gagnvart þinginu að því er varðar stöðu málsins svo ekki sé nú talað um nauðsynina og áhersluna sem hann leggur á að Alþingi fari að leggja blessun sína yfir þetta mál eins og það er vaxið. Ég skora á hæstv. forseta að taka á þessu máli þannig að þingið geti fengið eðlilegar lyktir fyrir jólahlé og að menn komi hér eftir að hafa skoðað málin og íhugað rækilega samkvæmt starfsáætlun þingsins síðla í janúarmánuði.