Byggingarframkvæmdir við sjúkrahúsið á Ísafirði

88. fundur
Mánudaginn 21. desember 1992, kl. 20:56:38 (4068)

     Kristinn H. Gunnarsson :
    Virðulegi forseti. Hér er um að ræða ákaflega einfalt framkvæmdaatriði sem á í reynd ekki að vera í höndum ráðherra, þ.e. að velja verktaka samkvæmt þeirri aðferð sem ríkið notar og eru oftast kölluð útboð. Það er faglegt mat sem á að ráða og það mat á að fara eftir ákvæðum útboðsskilmála. Einn hluti af útboðsskilmálum verksins sem og annarra verka er íslenskur staðall og samkvæmt honum ber ráðherra að taka lægsta tilboði nema einhverjir þeir gallar eða vankantar séu á lægstbjóðanda sem dæma hann frá. Þar væri í fyrsta lagi um að ræða fjárhagsstöðu og í öðru lagi reynslu verkkaupa af honum ef hún væri slæm. Það liggur fyrir frá framkvæmdadeild Innkaupastofnunar ríkisins, sem er hinn faglegi aðili fyrir hönd ríkisins, að verktakinn er hæfur, tilboðið er gott og gilt og þeir gera tillögu um að sá verði valinn sem lægstbjóðandi er. Hæstv. ráðherra kom ekki fram með neinar skýringar á því hvers vegna hann hefur dregið það

í tæpa 40 daga að fara að faglegu áliti þess aðila í kerfinu sem falið er að taka slíka aðila út. Enga skýringu hefur hæstv. ráðherra komið með fram. Ekki er laust við að sá grunur læðist að manni að eitthvað annað sé í spilinu en eingöngu fagleg sjónarmið og sá grunur verður dálítið sterkari eftir því sem lengra líður þegar við horfum yfir fyrri feril hæstv. ráðherra í þessum efnum en hann er vægast sagt orðinn æðiskrautlegur, virðulegi forseti.
    Að lokum vil ég benda hæstv. ráðherra á að þau ummæli og sá drjúgi hluti ræðu hans sem fór í að fjalla um vinnusvik, steypuskemmdir og annað slíkt í þessu húsi getur ekki átt við þann sem er lægstbjóðandi því hann hefur ekki verið verktaki þar svo ég viti til í stóru verki.