Byggingarframkvæmdir við sjúkrahúsið á Ísafirði

88. fundur
Mánudaginn 21. desember 1992, kl. 21:12:25 (4075)

     Einar K. Guðfinnsson :
    Virðulegi forseti. Það er eðlilegt að þingmenn Vestfirðinga ræði þetta mál á Alþingi vegna þess að hér er um að ræða stærsta verk sinnar tegundar sem er væntanlegt á markaðinn á Vestfjörðum. Þess vegna er gríðarlega mikið í húfi fyrir vestfirska verktaka hvernig þau mál öll saman æxlast. Út af fyrir sig

ber að fagna því sem hæstv. ráðherra sagði að það sé ekki rétt sem hefur verið haldið fram á Ísafirði, þ.e. að hæstv. ráðherra hafi í raun og veru tekið ákvörðun um það að ganga til samninga við næstlægsta tilboðsgjafann. Ég vek athygli á þessu sérstaklega vegna þess að hv. 1. þm. Vesturl. spurði um afstöðu sveitarfélaganna. Mér er kunnugt um að á bæjarráðsfundi á Ísafirði seinnipartinn í dag var rætt um hvort bæjarráðið ætti að álykta sérstaklega um málið. Þá gerðist það á bæjarráðsfundinum að fulltrúi Alþfl. greindi frá því að á því væri ekki þörf þar sem hæstv. heilbrrh. mundi hafa tekið ákvörðun sína í málinu. Þess vegna mundi ályktun ekki neinu breyta auk þess sem málin væru til umræðu á Alþingi. Nú hefur það verið leitt í ljós í ræðu hæstv. ráðherra að hann mun ekki hafa tekið ákvörðun í málinu og muni hugsa sitt mál mjög vandlega. Út af fyrir sig er það ákveðin hreinsun í þeirri umræðu sem nú á sér stað mjög mikið á Ísafirði og víðar út af þessu máli. Ég held að málið sé þess eðlis að það muni skipta mjög miklu, ekki bara vegna þessarar tilteknu framkvæmdar, sem þó er mjög þýðingarmikil fyrir verktakastarfsemina á Ísafirði og á Vestfjörðum, heldur líka vegna þess að verktakar allt í kringum landið munu auðvitað horfa til þess með hvaða hætti hið opinbera, ríkisvaldið, meðhöndlar þessi mál og hvort ríkið kjósi að fara einhverjar aðrar leiðir en þær sem að gert er ráð fyrir í íslenskum staðli nr. 30 og hv. málshefjandi vakti athygli á. Þetta held ég að sé aðalatriði málsins, að menn fái á því staðfestingu á hvern hátt ríkisvaldið hyggst vinna, hvort menn hyggist vinna hér faglega eða hvort unnið verði með einhverjum öðrum hætti.