Málefni aldraðra

88. fundur
Mánudaginn 21. desember 1992, kl. 23:12:45 (4083)


     Heilbrigðisráðherra (Sighvatur Björgvinsson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Mér er ljúft að upplýsa hv. þm. um eðli þeirra talna sem eru hér til meðferðar. Ég vil vitna í framhaldsnefndarálit meiri hluta fjárln. þar sem segir svo, orðrétt, með leyfi forseta, á bls. 1:
    ,,Þá gerir meiri hlutinn tillögur um hækkun útgjalda hjá A-hluta stofnunum. Heildarniðurstaðan er sú að útgjöld hækka um 44 millj. kr. Þar er einkum um að ræða hækkun framlaga til sjúkratrygginga, lækkun sértekna Hafrannsóknastofnunar, hækkun framlaga við viðhalds opinberra bygginga og Framkvæmdasjóðs aldraðra, þ.e. Hjúkrunarheimilsins Eirar.``
    Á bls. 4 í tillögu 385 í frhnál. 513 segir svo orðrétt, með leyfi forseta:
    ,,Framkvæmdasjóður aldraðra: Viðfangsefni 1.01 hækkar um 70 millj. kr. og verður 230 millj. kr. m.a. vegna væntanlegs reksturs Hjúkrunarheimilisins Eirar.``
    Með öðrum orðum: Hér er gert ráð fyrir og lagt til sérstakt framlag úr ríkissjóði, 70 millj. kr., til Framkvæmdasjóðs aldraðra til þess að verja í gegnum sjóðinn fjármagni til Hjúkrunarheimilisins Eirar vegna þess að ekki lá fyrir þegar þessi afgreiðsla var gerð sú rekstraráætlun sem við gætum notað til þess að efna til hjúkrunarheimlilisins sem sérstaks viðfangsefnis á fjárlögum.
    Það er alveg ljóst að hér er ekki verið að auka skerðingu Framkvæmdasjóðs aldraðra um svo mikið sem eina krónu, heldur er verið að leggja Framkvæmdasjóði aldraðra til nýtt viðbótarfé upp á 70 millj. kr. í þessu sérstaka skyni. Það er því alveg ljóst eins og segir í brtt. hv. meiri hluta heilbr.- og trn. að verið er að veita rekstrarfé á árinu 1993 í samræmi við ákvæði fjárlaga, ákvæði fjárlaga er um 160 millj. kr., punktur og basta, ekki krónu meira. Hins vegar segir í framhaldstexta að þessi fjárhæði megi aldrei nema hærri hlut en 55% af heildarúthlutun sjóðsins á árinu og á það að sjálfsögðu við árið 1994 og 1995 því árið 1993 var búið að afgreiða.
    Í öðru lagi liggur það fyrir að úr Framkvæmdasjóði aldraðra var búið að veita B-álmu Borgarspítalans miklu meira fé heldur en sú framkvæmd átti rétt á vegna þess að menn tóku bara trúanlegar þær upplýsingar sem fyrir menn voru lagðar úr byggingarreikningum spítalans.
    Ég hef ekki hugsað mér að rukka Reykjavíkurborg um það enda var enginn slíkur fyrirvari gerður þegar það fé var afhent. Hins vegar mun það nokkurn veginn standast á endum að þegar byggingunni verður lokið, hvenær svo sem það verður, þá mun framlagið úr Framkvæmdasjóði aldraðra sem þegar er búið að greiða, vera nokkurn veginn það sama og hámarksframlag, samkvæmt reglum sjóðsins, sem getur fallið til þeirrar byggingar.