Málefni aldraðra

88. fundur
Mánudaginn 21. desember 1992, kl. 23:18:03 (4086)

     Svavar Gestsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég verð að játa það að ég er sennilega eini þingmaðurinn sem ekki hefur hlustað á framsöguræðu hv. formanns fjárln., ég gerði það ekki. Ég vona að ég sé eini þingmaðurinn sem missti af þeirri merku ræðu, en þannig fór nú fyrir mér. Og hafi þar komið fram einhverjar upplýsingar í þessum efnum þá mun ég kynna mér þær. En málið er hins vegar þannig að þær 70 millj. sem hæstv. ráðherra er að tala um eru ekki beint úr ríkissjóði heldur er það þannig að mati hæstv. ráðherra í bréfum fyrir nokkrum vikum að þetta eru væntanlega þær 70 millj. sem hæstv. ráðherra telur að forveri hans hafi oft tekið úr Framkvæmdasjóði aldraðra. Þess vegna er hæstv. núv. ráðherra bara að skila þessum peningum Framkvæmdasjóðsins til hans aftur samkvæmt þeim túlkunum sem hæstv. ráðherra hafði uppi aðeins fyrir örfáum vikum.
    Ég bendi síðan á, virðulegi forseti, að hæstv. heilbr.- og trmrh. hefur ekki svarað spurningu minni um það hvernig hann hyggst haga þeirri könnun á högum aldraðra sem kemur fram í nál. meiri hlutans að ætlunin sé að efna til, né heldur hvernig hann hyggst standa að áætlanagerð til úrbóta í málefnum aldraðra sem einnig kemur fram í nál. meiri hluta hv. heilbr.- og trn.