Málefni aldraðra

88. fundur
Mánudaginn 21. desember 1992, kl. 23:35:43 (4089)

     Guðrún Helgadóttir (andsvar) :
    Frú forseti. Það væri verðugt verkefni t.d. fyrir hæstv. heilbrrh. að taka saman hversu mörg eldhús í stofnunum fyrir aldraða sem byggð hafa verið fyrir Framkvæmdasjóð aldraðra eru í notkun. Áfram eru byggðar þjónustustofnanir fyrir gamalt fólk með stofu og litlu eldhúsi. Þar sem ég hef komið hefur ekki eitt einasta af þessum eldhúsum verið í notkun. Það er nefnilega einhvern veginn þannig að þegar fólk er komið inn á þessar stofnanir, þó að hugmyndin hafi upphaflega verið að hver hefði sína litlu íbúð, þá verður fólk einhvern veginn einungis eins og sjúklingar á stofnun. Fólk notar ekki þessi eldhús og það þýðir ekkert að neita því. Þegar hv. fjárln. fór kynnisferð um Reykjanes á síðasta ári og við skoðuðum hið nýja og glæsilega heimili í Grindavík, þá spurði ég forstöðukonu þar hvort engum hefði dottið í hug að sleppa öllum þessum eldhúsum, öllum þessum ísskápum og eldavélum --- og sé ég nú að hv. 16. þm. Reykv. lítur til mín alvarlegur í bragði, en hann gæti kannski sagt okkur hvað margir nota eldhúsið sitt á Hrafnistu í Hafnarfirði. Svipurinn sagði meira en svarið.
    Mér finnst þetta vera sóun á peningum. Annaðhvort er stjórnun stofnananna letjandi fyrir gamla fólkið, reksturinn letjandi fyrir gamla fólkið að nýta þessi þægindi eða þessi þægindi eru út í hött og þá á heldur ekki að vera að eyða peningum í þau. Og ég þekki dæmi þar sem fólk hefur beðið um að eldhúsinnréttingin væri fjarlægð svo að stofan stækkaði. Það er auðveldara að fara niður og fá kaffi á könnu til að hafa með sér upp. Þetta er bara svona eitt dæmi um sóun sem þjónar ekki nokkrum einasta tilgangi.