Málefni aldraðra

88. fundur
Þriðjudaginn 22. desember 1992, kl. 00:20:35 (4102)


     Svavar Gestsson :
    Virðulegi forseti. Ég tók eftir því að í máli hæstv. heilbrrh. áðan komu fram vissar tölur varðandi vistunarmat sem mér fannst bera með sér að honum hefði komið það á óvart sem kom út úr vistunarmatinu. Staðreyndin er sú að vistunarmatið er mjög nýlega farið í gang. Það er ótrúlega stutt síðan. Og það er fróðlegt að velta því fyrir sér á hverju það strandaði. Það strandaði að mínu mati á borgarstjórnarmeirihlutanum í Reykjavík og forstöðumönnum þeirra sjálfseignarstofnana aldraðra sem hafa verið starfræktar á þessu svæði. Það er fyrst á síðasta ári, hygg ég, sem vistunarmatið kemst af stað af einhverjum myndugleik og það er gríðarlega mikilvægt stjórntæki. Það er þannig að ef vistunarmatið ætti að ná tilgangi sínum þá þyrfti ekki einasta að meta þá sem eru að sækja um heldur líka stöðu þeirra sem eru á þeim stofnunum sem eru starfandi.
    Samkvæmt upplýsingum félagsmálaráðs Reykjavíkurborgar er talið að þörf fyrir hjúkrunarrými sé 141. En það er aðeins mat á þeim umsóknum sem hafa borist til Reykjavíkurborgar. En borgin rekur svo ótrúlega lítinn hluta af stofnunum fyrir aldraða í kjördæminu. Þannig er að Reykjavík er með hjúkrunarrými á vegum Félagsmálastofnunar fyrir 79 manns af samtals 712 hjúkrunarrýmum í Reykjavík. Hitt er elliheimilið Grund, Hrafnista og síðan koma aðilar eins og Borgarspítalinn og Landspítalinn. Ég geri ráð fyrir því að Landakot, að svo miklu leyti sem þar fer af stað einhver starfsemi fyrir aldraða, sé tæplega komið inn í þetta heldur. Mér sýnist með öðrum orðum að miðað við þessar upplýsingar frá Félagsmálastofnun Reykjavíkur sé læknaliðið, ef ég má orða það svo, enn þá að einoka innskrift á þær stofnanir sem þeir hafa með að gera þannig að vistunarmatið hafi ekki náð til þeirra sem skyldi, alla vega hefur talan ekki skilað sér. Ég hugsa að besta könnunin sem gerð hefur verið á þessu máli hafi verið gerð á vegum Læknafélags Reykjavíkur í hittiðfyrra. Þá var talan var 150, hún var kannski 148 eða 157, en hún var á þeim slóðum. Ég hygg þess vegna að það sé sú tala sem eðlilegt er að miða við í þessu sambandi og að brýn þörf sé fyrir 150 hjúkrunarrými í Reykjavík.
    Ég ætla ekki, virðulegi forseti, að fara yfir þær almennu umræður um málefni aldraðra sem hér hafa verið í kvöld. Ég hef haldið mig við málefni framkvæmdasjóðsins og ætla mér að gera það. Ég get svo sem tekið undir margt af því sem hér hefur verið sagt með almennum hætti. Einn ljótasti kaflinn í málefnum aldraðra í Reykjavík, fyrir utan skortinn á hjúkrunarrými, eru þessar svokölluðu byggingar á þjónustuíbúðum fyrir aldraða. Það höfum við áður rætt hér. Þar er verið að blekkja fólk í stórum stíl að mínu mati. Þar hafa tiltölulega mjög sterkir byggingaraðilar, sem eiga innangengt í Sjálfstæðisflokkinn, fengið stórar lóðir og reist þar tugi eða hundruð íbúða og selt sem þjónustuíbúðir fyrir aldraða þar sem er svo engin sérstök þjónusta fyrir gamalt fólk.

    Það er líka rétt að nefna það að lokum, virðulegi forseti, að það var mjög fróðlegt að heyra það sem hæstv. ráðherra sagði hér áðan að út úr vistunarmatinu hefði komið, ef ég skildi hann rétt, að á sumum svæðum væri í raun og veru engin þörf fyrir hjúkrunarrými eins og staðan er í dag. Og ég held að það væri gagnlegt ef hæstv. heilbr.- og trmrh. vildi koma þessum upplýsingum um vistunarmatið á landsvísu á framfæri við heilbr.- og trn. þingsins þannig að menn gætu glöggvað sig á þessum hlutum.
    Staðreyndin er auðvitað sú að vistunarmatið er algjör forsenda ákvarðana um nýjar stofnanir, bæði um það hvernig á að segja já en líka um það hvernig á að segja nei. Ég hefði gjarnan viljað hafa þetta vistunarmat þegar menn lögðu áherslu á það að fá byggðar upp ýmsar stofnanir fyrir aldraða á vissum stöðum úti á landi þann tíma sem ég var í heilbrrn. Það hefði auðveldað manni að segja nei. Ráðuneytið sagði stundum nei við tilteknum óskum, en fjárln., eða fjárveitinganefnd á þeim tíma, og Alþingi tók fram fyrir hendurnar á ráðuneytinu. Mín reynsla var því sú að það væri afar erfitt að ná faglegum ákvörðunum í heilbrrn. vegna þess að kjördæmahagsmunir réðu svo miklu um úthlutun fjár burt séð frá þörfinni, liggur mér við að segja, í einstökum tilvikum.
    Ég ætla að nefna eitt dæmi. Ég neitaði því á minni tíð að byggt yrði elliheimili á Reykhólum. Mér er alveg ljóst að það er talsverð þörf fyrir slíka starfsemi á Reykhólum. En mér var jafnljóst á þeim tíma og er enn að möguleikar byggðarlagsins til að reka þessa stofnun með eðlilegum og myndugum hætti eru afar knappir. Hið sama get ég sagt um íbúðir fyrir aldraða eða elliheimili í öðrum byggðarlögum eins og t.d. í Dalasýslu þar sem reist var elliheimili fyrir allmörgum árum sem er fyrir löngu komið í hendurnar á Ríkisspítölunum með óbeinum hætti. Menn hafa aftur og aftur verið að byggja stofnanir fyrir gamalt fólk í þágu þess göfuga markmiðs að veita gömlu fólki góða þjónustu, en í rauninni hafa þarfirnar ekki verið með þeim hætti sem menn héldu að þær yrðu. Þess vegna hefur það iðulega gerst að menn hafa setið uppi með stofnanir sem þeir hafa ekkert ráðið við að reka. Vistunarmatið er með öðrum orðum nauðsynlegt tæki bæði til að segja já en líka til að segja nei á réttum stöðum.
    Þetta er auðvitað gríðarlega mikilvægur þáttur. Sérstaklega held ég að þetta sé mikilvægt í Reykjavík þar sem Sjálfstfl. hefur farið mjög illa með vald sitt í málefnum aldraðra, bæði í einstökum stofnunum og í málaflokknum í heild.
    Erindi mitt í ræðustólinn núna var að leiðrétta þær tölur sem fram hafa komið um hina brýnu þörf fyrir hjúkrunarheimili. Niðurstaða mín er sú, eftir að hafa lesið tölur bæði Félagsmálastofnunar og farið rækilega yfir Læknafélagstölurnar frá í fyrra, sem birtust í tímariti lækna, ég skrifaði um það nokkrar greinar í blöð, að rétt sé að miða við u.þ.b. 150 að því er varðar brýna þörf á plássi fyrir gamalt fólk í Reykjavík.
    Að lokum, virðulegi forseti. Ég man ekki hvort hæstv. ráðherra var búinn að svara því --- það hefur þá farið fram hjá mér og ég afla mér upplýsinga um það --- hvernig hann hyggst koma fyrir könnun á högum aldraðra. Það er mjög mikilvægt að það liggi fyrir, einnig við þessa umræðu, hvernig á að haga þeirri könnun sem gert er ráð fyrir í áliti meiri hluta hv. heilbrn.