Tekjustofnar sveitarfélaga

88. fundur
Þriðjudaginn 22. desember 1992, kl. 01:48:04 (4108)

     Halldór Ásgrímsson :
    Virðulegur forseti. ( Gripið fram í: Tala stutt. Góð ræða, stutt.) Já, það má segja það að það væri ástæða til þess að reyna að tala stutt um þetta mál þó að það sé allrar athygli vert og sé nauðsynlegt að gera því nokkuð góð skil. Ég vil taka það fram að ég er mjög ánægður með það að nú skuli loks hilla undir það að aðstöðugjaldið verði fellt niður. Það eru mikil gleðitíðindi og er ástæða til þess að fagna því og þakka það að þessi niðurstaða skuli hafa fengist. Þetta er baráttumál sem margir hafa haft á sinni stefnuskrá um margra ára skeið. Stjórnmálaflokkar hafa ályktað um það, atvinnugreinar hafa ályktað um það og það voru mikil tíðindi þegar verkalýðshreyfingin lýsti sig reiðubúna til að standa að því að fella aðstöðugjaldið niður. Það er eins og fram kemur í áliti frá Alþýðusambandi Íslands þar sem segir, með leyfi forseta:
    ,,Það var sameiginlegt álit í atvmn. að æskilegt væri að fella aðstöðugjald niður.``
    Í því sambandi var ekki aðeins vísað til þess að aðstöðugjöldin væru ekki aðeins mikilvægur kostnaðarliður heldur enn frekar til þess að þar sem aðstöðugjald leggst á heildarkostnað viðkomandi fyrirtækis safnast það upp ef um er að ræða viðskipti á milli fyrirtækja. Ég tel ekki ástæðu til að gera nánari grein fyrir þessu áliti Alþýðusabands Íslands en það eru mikil tíðindi að verkalýðshreyfingin skuli hafa tekið málinu með þessum hætti.
    Það sem skyggir hins vegar á þetta mál er sú staðreynd að þrátt fyrir mjög góðan vilja aðila vinnumarkaðarins tókst ríkisstjórninni ekki að virkja þennan vilja til samstöðu heldur klúðraði málinu af einhverjum óskiljanlegum ástæðum, m.a með því að saka verkalýðshreyfinguna um að hún vildi leggja mun meiri álögur á landsmenn en ríkisstjórnin sjálf. Það voru skilaboðin sem menn sendu þingi Alþýðusambands Íslands á Akureyri.
    Á fundi efh.- og viðskn. í dag þar sem farið var yfir þessar skattaálögur kom fram mat Alþýðusambands Íslands á því hvað hér væri á ferðinni. Í fyrsta lagi er hækkun tekjuskatts um 1,5% eða 2.900 millj. Það er hækkun sem að mínu mati er eðlileg í ljósi þess að aðstöðugjaldið er fellt niður og má segja að verkalýðshreyfingin hafi almennt ekki gert miklar athugasemdir við þetta atriði nema fulltrúar Bandalags starfsmanna ríkis og bæja og BHMR. Síðan er gert ráð fyrir lækkun persónuafsláttar upp á 700 millj., sem hefur valdið mjög miklum mótmælum, og hátekjuskatt, upp á 400 millj. eða samtals 4.000 millj. kr. aukningu tekjuskatts. Þar að auki hækkun vegna vaxtabóta 500 millj. og hækkun viðmiðunarmarka sjálfstæðra atvinnurekenda, þ.e. 4.800 millj. í tekjuskatti. Síðan kemur hækkun undanþágna í virðisaukaskatti 1.800 millj. og hækkun bensíngjalds 375 millj. Samtals eru þetta um 7 milljarðar, eða 6.975 millj., en á móti er fellt niður aðstöðugjald. Útgjöld ríkissjóðs vegna þess eru 4.250 millj. og útgjöld vegna lækkunar tryggingagjalds á ferðaþjónustu eru 250 millj. Af þessu má sjá að þær skattahækkanir sem nú eru lagðar á eru mun meiri en aðstöðugjaldinu nemur hvað svo sem hæstv. fjmrh. segir á Alþingi um þetta mál.
    En eitt atriði er skilið eftir í mikilli óvissu í þessu máli og það er landsútsvarið. Hæstv. ríkisstjórn hefur ákveðið að skilja landsútsvarið eftir sem er ekkert annað en aðstöðugjald. Ég er þeirrar skoðunar að ekki sé verjanlegt að fella niður aðstöðugjaldið nema samræmi sé í þeim málum og landsútsvarið einnig fellt niður. Aðstöðugjald sveitarfélaganna á uppruna sinn að rekja til svokallaðs veltuútsvars. Aðstöðugjaldið var fyrst lagt á með lögum frá Alþingi 1962. Þau lög komu í stað laganna um tekjuútsvar frá árinu 1960. Forsendur laganna voru fyrst og fremst tvö grundvallartriði, þ.e. að sjá sveitarfélögunum fyrir tekjustofni, sem kæmi í stað veltuútsvars, og í öðru lagi þótti þá sanngjarnt að fyrirtækin greiddu fyrir þá aðstöðu og þjónustu sem þau fengu hjá sveitarfélögunum. Það kom það greinilega fram þegar lögum um veltuútsvar var breytt á Alþingi en í greinargerð með því frv. sagði m.a. að því er varðaði olíufélögin, með leyfi forseta:
    ,,Lagt er til að auk ríkisfyrirtækjanna verði olíufélögunum (nú Olíuverslun Íslands hf., Olíufélagið hf. og Skeljungur hf.) gert að greiða landsútsvar, enda eru þau undanþegin aðstöðugjaldi, sbr. 8. gr. 2. mgr. Félög þessi hafa þá sérstöðu að þau greiða öll útsvar á fjölmörgum stöðum, eða ca. 60 stöðum í landinu, sem þá hafa verið veltuútsvar alls staðar utan Reykjavíkur.
    Reynslan hefur sýnt að af þessum sökum hafa risið mörg ágreiningsefni svo að félögin hafa einatt kært þessa álagningu. Mun því mikið málavafstur sparast með því að leggja á félögin landsútsvar. Eigna- og tekjuútsvar greiða þessi félög að sjálfsögðu hér eftir sem hingað til.``
    Það er því alveg ljóst að landsútsvarið er ekkert annað en ígildi aðstöðugjalds og má rekja tilkomu þess til þeirrar staðreyndar að lagður var sambærilegur skattur á öll fyrirtæki en vegna sérstöðu ákveðinna fyrirtækja þótti rétt að viðhalda landsútsvarinu.

    Í umsögnum sem við fengum í efh.- og viðskn. er álit Vinnuveitendasambands Íslands mjög skilmerkilegt. Þar segir m.a., með leyfi forseta:
    ,,Vinnuveitendasambandið hefur talið ótvírætt að niðurfelling veltuskattsins, aðstöðugjalds eða landsútsvars hlyti að gilda um öll fyrirtæki og telur fráleitt að til álita geti komið að halda uppi slíkri sértækri skattheimtu á rekstur fáeinna tiltekinna fyrirtækja. Álagning aðstöðugjalds/landsútsvars á þessi örfáu fyrirtæki bryti svo gróflega í bága við viðurkenndar jafnræðisreglur að það fengi með engu móti staðist. Það hefði sömu óheppilegu áhrifin á atvinnustarfsemina, skerti samkeppnishæfni íslenskra fyrirtækja á umræddum sviðum og ylli hærri kostnaði við þá þjónustu og framleiðslu sem umrædd fyrirtæki stunda.
    Er í þessu sambandi sérstaklega minnt á brýna þörf til að styrkja samkeppnishæfni íslenska bankakerfisins með lækkun rekstrarkostnaðar og þar af leiðandi lækkun vaxtamunar. Afnám aðstöðugjalds/landsútsvars af starfsemi banka og sparisjóða er þannig ein af forsendum fyrir lækkun vaxta og styrkari stoðum innlendra fjármálafyrirtækja á opnum markaði EES.
    Vinnuveitendasambandið væntir þess því fastlega að landsútsvar verði fellt niður frá næstu áramótum að telja eins og aðstöðugjaldið að öðru leyti.``
    Þegar talað er um jafnræðisreglu í þessu sambandi er að sjálfsögðu átt við 67., 70. og 71. gr. stjórnarskrárinnar, en ég ætla ekki að rekja þær reglur hér. Þær eru hv. alþm. kunnar. Til þeirra hefur oft verið vitnað á undanförnum dögum. Það er alveg ljóst að það stenst ekki þessar greinar stjórnarskrárinnar að velja út einhver tiltekin fyrirtæki og leggja á þau skatt. Þar verður að vera jafnræði milli atvinnugreina og er hætt við því að sú skattlagning sem á að fara út í muni ekki standast þessi ákvæði stjórnarskrárinnar. Þrátt fyrir þá miklu hættu sem þarna er á ferðinni er ekki hikað við að leggja af stað í þessa ferð og hafa í þeim efnum, sem mörgum öðrum, bundið fyrir bæði augun og láta sig afleiðingarnar litlu skipta. Það er ekki nóg, virðulegur forseti, að setja lög um innheimtu skatta. Það verður að vera líklegt að sú löggjöf fái staðist jafnræðisreglur stjórnarskrár og almenna réttlætiskennd.
    Að vísu er það svo að því er varðar stóran hluta veltuútsvarsins að þar er um að ræða fyrirtæki sem ríkið á. Hér er um að ræða samtals rúmar 580 millj. og þar af er gert ráð fyrir að ÁTVR greiði rúmar 300 millj. og fyrirtæki eins og Sala varnarliðseigna rúma milljón.
    Það vekur nokkra undrun að gert skuli ráð fyrir því að fyrirtæki eins og Áburðarverksmiðjan skuli eiga að greiða landsútvar á næsta ári. Hæstv. landbrh. hefur haldið því fram að líklegt sé að Áburðarverksmiðjan geti ekki haldið áfram sinni framleiðslu ef Íslendingar gerast aðilar að hinu Evrópska efnahagssvæði. Þetta er þungur dómur hjá hæstv. landbrh. og vonandi kemur ekki til þess vegna þess að fyrirtækið er stór vinnustaður og mikill fjöldi fólks byggir afkomu sína á þessari starfsemi. Við megum að sjálfsögðu ekki við því að svo mikilvægt fyrirtæki leggist niður. Ég hef trú á því að Áburðarverksmiðjan geti staðist samkeppni ef hún fær eðlileg starfsskilyrði. Við hljótum að stefna að því að nýta þetta mikilvæga fyrirtæki sem ríkið hefur lagt mikla fjármuni í til uppbyggingar og má rekja langt aftur í tímann, en þessi verksmiðja var byggð upp úr síðari heimsstyrjöldinni og nutum við þar m.a. svokallaðrar Marshall-aðstoðar. Ef ríkisstjórnin og meiri hluti Alþingis hefur ekki skilning á því að skapa þessu fyrirtæki sambærileg starfsskilyrði við önnur þá mun að sjálfsögðu illa fara. Væri fróðlegt að heyra álit hæstv. landbrh. á þessu máli.
    Annað fyrirtæki sem gert er ráð fyrir að landsútsvar verði lagt á er Íslenska járnblendifélagið. Í erindi til fjmrn., sem dags. er 30. nóv., segir m.a., með leyfi forseta:
    ,,Í 12. gr., lið 3 undir lið d, í aðalsamningi ríkisstjórnar Íslands við Elkem AS og Sumitomo Corporation frá 13. sept. 1984 er ákvæði um að Íslenska járnblendifélagið skuli greiða veltuskatt af veltu sinni, ekki hærri en 0,5% af rekstrargjöldum eftir venjulegum reglum skattalaga.
    Þetta ákvæði er óbreytt frá upphaflegum aðalsamningi frá 1976 og hefur sem slíkt hlotið lagagildi með lögum nr. 18/1977, um járnblendiverksmiðju í Hvalfirði, og lögum nr.

95/1984, um breytingu á þeim lögum. Í téðum aðalsamningi er skýrt tekið fram að veltuskattur þessi sé álagður í staðinn fyrir aðstöðugjald skv. V. kafla laga nr. 8/1972, um tekjustofna sveitarfélaga.
    Þegar aðstöðugjald, samkvæmt tilvitnuðum V. kafla tekjustofnalaganna, verður nú fellt niður er ljóst að innheimta veltuskatts af þessu tagi af Járnblendifélaginu fær ekki staðist samkvæmt greindum aðalsamningi.``
    Ég veit ekki til þess að nokkur maður dragi það í efa að það sé rétt hjá forsvarsmönnum Járnblendiverksmiðjunnar að álagning landsútsvarsins standist ekki þann samning sem ríkið sjálft hefur undirritað. Þrátt fyrir að þessi samningur liggi fyrir á að leggja aðstöðugjald á þetta sama íslenska járnblendifélag.
    Nú er líka merkilegt í þessu sambandi að málefni þessa fyrirtækis hafa verið til sérstakrar skoðunar hjá ríkisstjórn Íslands af ástæðum sem flestum eru kunnar. Í bréfi, sem fjmrn. skrifaði efh.- og viðskn. þann 18. des. 1992, kemur eftirfarandi fram, með leyfi forseta:
    ,,Málefni Íslenska járnblendifélagsins hf. hafa að undanförnu verið til sérstakrar athugunar í fjmrn. og iðnrn. og hjá meðeigendum ríkissjóðs í verksmiðjunni. Eins og kunnugt er er fjárhagsstaða fyrirtækisins afar erfið um þessar mundir. Ýmsar aðgerðir hafa verið ræddar í þessu sambandi, eins og kemur fram á hjálögðu minnisblaði iðn.- og viðskrh. til ríkisstjórnarinnar dagsett í dag.
    Á meðan þessi mál eru til athugunar hefur ríkissjóður veitt fyrirtækinu bráðabirgðafyrirgreiðslu sem ráðuneytið telur rétt að kynna fyrir hv. efh.- og viðskn. Alþingis. Fjmrn. hefur veitt Íslenska járnblendifélaginu hf. bráðabirgðafyrirgreiðslu að fjárhæð samtals 100 millj. kr. á þessu ári og er líklegt að um frekari fyrirgreiðslu verði að ræða á næsta ári. Þessi fjárhæð hefur verið færð á viðskiptareikning ríkissjóðs, sbr. 1. gr. fjárlaga og lánsfjárlaga fyrir árið 1992, þar sem um skammtímahreyfingu er að ræða. Heildarstaða viðskiptareikninga ríkissjóðs er innan heimilda umræddra laga.``
    Og í minnisblaði sem hæstv. viðskrh. ritaði til ríkisstjórnarinnar kemur fram að mál fyrirtækisins eru þar til sérstakrar athugunar, m.a. með það í huga að auka hlutafé í fyrirtækinu til að tryggja áframhaldandi rekstur þess.
    Ég get ekki skilið, hæstv. forseti, hvernig á því stendur, og væri fróðlegt að fá útskýringar hæstv. iðnrh. í því sambandi, að farið er út í það að leggja áfram landsútsvar á þetta fyrirtæki sem er í slíkum fjárhagslegum erfiðleikum, erfiðleikum sem ríkissjóður þarf sennilega að taka á með einum eða öðrum hætti. Það er í meira lagi óskynsamlegt að ganga þannig fram.
    Þá er gert ráð fyrir því að Sementsverksmiðja ríkisins borgi landsútsvar upp á 10 millj. kr. Hæstv. ríkisstjórn hefur lagt fyrir Alþingi frv. til laga um að breyta Sementsverksmiðju ríkisins í hlutafélag. Ég veit ekki betur en það sé ætlan hæstv. ríkisstjórnar að þetta frv. verði að lögum á Alþingi. Í því er gert ráð fyrir að landsútsvar Sementsverksmiðju ríkisins, ef verksmiðjunni verður breytt í hlutafélag, verði að aðstöðugjaldi. Um leið og þetta frv. ríkisstjórnarinnar verður að lögum mun það því falla undir aðstöðugjald en þá hefur aðstöðugjaldið verið fellt niður. Við samþykkt frv. mun Sementsverksmiðja ríkisins þess vegna ekki greiða aðstöðugjald. Það má því teljast mjög furðulegt að það skuli vera ákveðið að viðhalda þessari skattlagningu á fyrirtækinu þegar tillögur eru uppi um annað á hv. Alþingi.
    Þá eru eftir tveir flokkar rekstraraðila, þ.e. olíufélögin annars vegar og bankar og sparisjóðir hins vegar. Samtals er gert ráð fyrir að innheimtar verði 230 millj. af olíufélögunum og bönkum og sparisjóðum. Má segja að það séu þeir fjármunir sem skipta máli fyrir ríkissjóð í þessu sambandi því hitt eru allt fyrirtæki sem ríkissjóður á eða ræður að öllu eða mestu leyti. Þannig háttar líka með bankana í landinu en það er mikilvægt á þessum tímum að styrkja samkeppnisstöðu þeirra. Ríkisstjórnin hefur lýst því yfir að það sé afar þýðingarmikið nú þegar fjármagnsmarkaðurinn opnast og Íslendingar búa sig undir að taka þátt í alþjóðlegu samstafi í mun meira mæli en áður. Þá skiptir miklu máli fyrir okkar fjárhagslega sjálfstæði að við eigum sterkar peningastofnanir sem eru vel undir það búnar að takast á við alþjóðlega samkeppni.
    Það væri fróðlegt að fá útskýringar hæstv. viðskrh. á því hvernig hann hugsar þetta mál, hvort hann telur ekki nauðsynlegt að bankar og sparisjóðir búi við sambærileg samkeppnisskilyrði og gengur og gerist meðal annarra þjóða. Það er óþekkt að slíkur skattur sé lagður á í öðrum löndum og því út í hött að halda honum á bönkum og sparisjóðum hér á landi. Ef ríkisstjórnin vill innheimta meiri tekjur af þessari tegund atvinnurekstrar verður að vera um almenna skattlagningu að ræða sem stenst jafnræðissjónarmið. Ég held að það sé jafnframt ljóst að eiginfjárstaða ríkisbankanna er ekki það góð og því óskynsamlegt af ríkinu að skattleggja með þessum hætti eigin fyrirtæki. Þessi skattur er að verulegu leyti af þeim bönkum sem ríkissjóður á, eða allmiklu meira en helmingur hans, og hefst fremur lítið upp úr því. Þá væri nær að gera kröfu um að viðkomandi bankar skiluðu einhverjum arði í ríkissjóð af sínum hagnaði. Ríkið á þessar stofnanir og getur að sjálfsögðu gert kröfu til þess að viðkomandi bankar skili arði.
    Að mínu mati er því mjög óvarlegt að fara út í skattheimtu sem þessa sem líklegt er að verði hrundið í málaferlum á næstu árum. Það munu jafnframt geta orðið kostnaðarsöm málaferli og að endingu orðið til þess að ríkissjóður tapi mun meira fé en ætlunin er að innheimta nú.
    Þá er að lokum að minnast á olíufélögin. Gert er ráð fyrir að olíufélögin greiði 127 millj. í þennan skatt á næsta ári. Nú er það vitað mál að þessi skattur fer inn í verðlag á olíuvörum. Það er alveg ljóst að landsútsvar á olíufélögin kemur fram í hærra verði á bensíni, svo dæmi sé nefnt. Ef það er ætlunin að innheimta meiri gjöld af þeim vörum sem olíufélögin selja er það miklu nær almennri skattlagningu og almennum reglum í sambandi við skattamál að leggja slíkan skatt beint á vöruna sem um er að ræða.
    Ég hef í þessum orðum, virðulegur forseti, bent á það með rökum að hér er tekin óþarfa áhætta sem átti að sjálfsögðu ekki að taka því það hefði verið hægur vandi að leggja þessa skatta á með öðrum hætti og af meira réttarfarslegu öryggi.
    Þrátt fyrir ótvíræð rök í þessa átt féllst meiri hluti efh.- og viðskn. ekki á að taka þau til greina. Það er í samræmi við önnur vinnubrögð í þessu máli. Þetta er allt saman unnið í miklum flýti og stjónarflokkarnir virðast hafa gert samkomulag sem engin heilbrigð skynsemi fær hrundið. Menn hafa fest sig í hluti af einhverjum ástæðum sem við í minni hlutanum fengum engan botn í. Jafnvel þótt margir nefndarmanna í efh.- og viðskn. kæmu auga á hversu augljóst það væri að þetta fengi ekki staðist til lengdar virtist það ekki skipta neinu máli. Það er að mínu mati slæmur svipur á annars góðu máli að ekki skyldi vera farið fram með það á þann hátt að fullt jafnræði væri milli fyrirtækja í landinu.
    Þegar aðstöðugjaldið var fyrst lagt á hér á landi bjuggum við við allt aðrar aðstæður og allt annað samfélag en við búum í dag. Þá var mismunandi aðstöðugjald lagt á einstakar greinar og kom mjög skýrt fram í umræðum á Alþingi að það voru forsendur fyrir því af hverju skatturinn var mismunandi. Helstu ástæðurnar voru þær að sjávarútvegurinn var sú atvinnugrein sem skapaði nær allar gjaldeyristekjurnar en aðrar atvinnugreinar voru meira og minna verndaðar með háum tollum og aðflutningsgjöldum. Þessar atvinnugreinar bjuggu þess vegna við allt aðrar verðaðstæður en sjávarútvegurinn sem var í samkeppni á erlendum mörkuðum og þurfti að vera fær um að standast alþjóðlega samkeppni. Það var því tilhneiging til að leggja tiltölulega lágt gjald á sjávarútveginn en hærra gjald á aðrar greinar.
    Við núverandi aðstæður er þetta allt öðruvísi. Iðnaðurinn er í beinni og opinni samkeppni við erlendan iðnað og þarf að geta staðið sig í alþjóðlegri samkeppni og því hafa aðstæður allar breyst. Aðstöðugjaldið hefur frá upphafi verið mjög ósanngjarn skattur. Hann er ekki mælikvarði á gjaldþol greiðenda og leiðir sjálfkrafa til hárrar álagningar á þá sem velta miklum fjármunum, án tillits til þess hvort hagnaður er af þeirri starfsemi eða ekki, og hefur því á margan hátt unnið gegn verkaskiptingu og sérhæfingu í íslensku samfélagi. Ég er því sannfærður um að aðstöðugjaldið hefur valdið því að þjóðartekjur okkar eru lægri en þær annars hefðu orðið. Ég vil jafnframt nefna að það hefur verið mikil tilhneiging til

að reyna að lækka aðstöðugjaldið með því að stunda umboðssöluviðskipti til að koma í veg fyrir gjaldtöku.
    Hins vegar má segja að aðstöðugjaldið er ósanngjarnari skattstofn í dag en hann hefur nokkru sinni verið. Hann fær ekki staðist neinar alþjóðlegar reglur og slíkur skattur hefur ekki verið upphugsaður í neinu öðru landi.
    Ég vil því að lokum, virðulegur forseti, fagna því að nú hillir undir að þessi skattur verði lagður af. Ég harma hins vegar að það skyldi ekki gert í einu lagi og landsútsvarið lagt af jafnframt. Ég vænti þess að það verði gert þegar að hæstv. ríkisstjórn áttar sig á því að það stenst ekki að gera það með þeim hætti sem þar er stofnað til. Það hefði verið æskilegra að gera það strax. Ég tel að fullur vilji hafi verið fyrir því í efh.- og viðskn. En einhverra hluta vegna virðast ráðherrar hafa bundist einhverju samkomulagi í málinu sem að enginn fær skilið. Þó væri verst af öllu ef ríkisstjórnin yrði hreinlega dæmd til að leggja skattinn af, sem er ekki ólíklegt, og fengi á sig þann dóm að hafa brotið þær greinar stjórnarskrárinnar sem ég vitnaði til áður, þ.e. sérstaklega 67. gr. en einnig 70. og 71. gr. stjórnarskrárinnar.
    Það liggur fyrir að Vinnuveitendasamband Íslands mun höfða slíkt mál. Ég hef skilið hæstv. forsrh. þannig að slíka áhættu eigi menn ekki að taka og hefur hann m.a. vitnað til nýgengins dóms í svokölluðu BHMR-máli, sem var mikilvægt mál á sínum tíma. Menn verða að taka tillit til dóma Hæstaréttar í sambandi við undirbúning annarra mála sem koma á eftir. Það þýðir ekki að binda fyrir augun og láta sem ekkert hafi gerst. Því miður er það háttur hæstv. ríkisstjórnar um þessar mundir og vil ég spá því að það eigi eftir að koma henni í koll.
    Ég sé ekki ástæðu til að gera frekari grein fyrir því áliti sem minni hluti efh.- og viðskn. sendi frá sér í þessu máli, það hefur verið fest við bæði álit meiri hluta og minni hluta félmn., en lokaorð þess eru eftirfarandi, með leyfi forseta:
    ,,Þrátt fyrir öll þessi rök sýndi ríkisstjórnin engan vilja til að leiðrétta þau mistök sem virðast hafa átt sér stað.`` --- Það hefur nefnilega komið fram af hálfu ákveðinna aðila, ekki síst aðila vinnumarkaðarins, að það hafi verið mistök að fella ekki niður landsútsvarið. Síðan hafi þessi mistök orðið að þráhyggju sem ekki verði komist út úr.
    Að lokum segir: ,,Það er ekki hægt að styðja slík vinnubrögð og því leggur minni hluti efh.- og viðskn. til að landsútsvarið verði jafnframt fellt niður.``
    Ég vænti þess að þetta mál verði tekið til frekari umfjöllunar milli 2. og 3. umr. Þá hefur hæstv. ríkisstjórn tækifæri til að lagfæra þetta mál og m.a. koma í veg fyrir að hún verði ógæfusöm af þessum völdum. Hæstv. forsrh. hefur sýnt mikla umhyggju fyrir minni hlutanum á Alþingi, að hann væri ekki að styðja eða flytja tillögur sem hugsanlega gætu gert viðkomandi flutningsmenn eða þá sem greiða atkvæði með slíkum tillögum að ógæfumönnum. Hafði hann við atkvæðagreiðslu hér í gær eða fyrradag miklar áhyggjur af velferð þess sem hér stendur. Ég vænti þess að hæstv. forsrh. hafi ekki síður áhyggjur af eigin velferð og ríkisstjórnar sinnar. Ég vil eindregið ráðleggja honum og ríkisstjórn hans að breyta þessu máli, ekki síst til að koma í veg fyrir það að hæstv. fjmrh. og hæstv. félmrh. verði dæmdir fyrir hönd ríkissjóðs til að endurgreiða þennan skatt til þeirra sem hann verður á lagður.