Tekjustofnar sveitarfélaga

88. fundur
Þriðjudaginn 22. desember 1992, kl. 02:40:07 (4110)

     Hjörleifur Guttormsson :
    Virðulegur forseti. Ég ætla að koma að fáeinum ábendingum varðandi það frv. sem hér er til umræðu um tekjustofna sveitarfélaga. Ég vil almennt segja það að mér finnst sú stefna, sem ætti að vera meginstefna þessa máls, að breyta til um þennan gjaldstofn og finna annan nýjan og frambærilegan gjaldstofn, sé jákvæð og ég tel að það sé í rauninni löngu fram komin allgild rök fyrir því að leita að öðru formi varðandi tekjuöflun sveitarfélaga heldur en aðstöðugjaldið er.
    Hér var af síðasta ræðumanni minnt á það að fram hefðu komið tillögur þegar á árinu 1989 eða 1990 varðandi aðstöðugjaldið en umræður um þetta hafa raunar staðið miklu lengur og ég minni á það að í tillögu um iðnaðarstefnu sem samþykkt var 1982 var það einn liðurinn í þeirri stefnumótun að breyta til og a.m.k. að jafna aðstöðugjaldið gagnvart atvinnugreinum í landinu þannig að ekki yrði um þá miklu mismunun að ræða sem í rauninni öll rök voru fallin niður fyrir frá því sem var þegar þetta var upphaflega upp tekið. Það sem er sérstaklega gagnrýnivert við þetta mál eins og það liggur fyrir hér er að það liggur ekkert fyrir um hvaða stefnu eigi að taka upp eftir næsta ár, hvaða gjaldstofnar það verði sem verði fundnir í staðinn fyrir aðstöðugjaldið og hér er um hreint bráðabirgðaúrræði að ræða eins og það liggur fyrir samkvæmt þessu frv. Það hefur komið fram gagnrýni frá sveitarfélögum um það að þetta komi mjög misjafnt niður. Ég hef fengið t.d. frá Austurlandi mörg erindi frá sveitarstjórnum að undanförnu þar sem þessi tilhögun sem hér er innleidd er gagnrýnd og síðan er það sú skerðing á framlagi til Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga, sem fram kemur á IV. lið þessa frv., skerðing upp á 110 millj. kr. sem fram kemur á síðasta stigi málsins án nokkurs fyrirvara og án nokkurs samráðs við sveitarstjórnir. Þar er vegið mjög óeðlilega að þessum helsta sjóði sveitarfélaganna, jöfnunarsjóðnum, og gerir honum að sjálfsögðu erfiðara að standa undir þeim markmiðum sem gert er ráð fyrir í lögum og reglum um sjóðinn.
    Þetta eru þau atriði helst sem ég vildi nefna hér við þessa umræðu málsins. Ég tel að ríkisstjórninni hafi farnast heldur illa við undirbúning þessa máls og það hefði sannarlega þurft að hafa hér önnur tök uppi þó að stuðningur sé við það stefnumið sem boðað er með frv. sjálfu en það má segja að útfærslan valdi því að það er hik á mönnum að samþykkja þetta mál og ég hef fullan fyrirvara varðandi afstöðu til einstakra þátta málsins þegar til afgreiðslu þess kemur.