Tekjustofnar sveitarfélaga

88. fundur
Þriðjudaginn 22. desember 1992, kl. 02:44:13 (4111)

     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) :
    Hæstv. forseti. Hv. 8. þm. Reykn. beindi til mín spurningum sem ég mun leitast við að svara. Í fyrsta lagi var spurt um það hvort ríkisstjórnin hefði ákveðið ákveðnar leiðir

til að fara sem gætu tekið við af því bráðabirgðaástandi sem hefst á nýju ári þegar aðstöðugjaldið er fellt niður en sveitarfélögin fá fjármuni í staðinn úr ríkissjóði af þeim sköttum sem ríkið tekur á næsta ári. Það liggur ekkert fyrir um það hvaða stefnu málið tekur en það er samkomulag um það, þetta er auðvitað mál sem heyrir undir félmrn., að félmrn., fjmrn. og sveitarfélögin leiti leiða til þess að finna það kerfi sem hentar að taka upp í framhaldi af þessu millibilsástandi. Ekkert er hægt að segja um það á þessari stundu hver niðurstaðan verður eða að hve miklu leyti tekjustofnalögunum verður breytt þannig að tekjur sveitarfélaganna komi frá einstaklingum eða fyrirtækjum. Um það liggur ekkert fyrir, en það er skýr niðurstaða hvað það snertir að tíminn verði notaður og væntanlega mun liggja fyrir nýtt kerfi áður en þing kemur saman næsta haust. Um það er þó of snemmt að spá á þessari stundu en að því er stefnt.
    Í öðru lagi var spurt um landsútsvarið, hvort lægi fyrir formlegt lögfræðiálit og þá frá ríkislögmanni eða öðrum lögmanni. Svo er ekki. Hins vegar er frv. samið af lögfræðingum ráðuneytisins og að sjálfsögðu hefur málið verið rætt á þess vegum. Það er niðurstaða lögfræðinga ráðuneytisins að frv. standist eins og það er í dag og hægt sé að leggja á landsútsvör á sum fyrirtæki, bæði opinber fyrirtæki og einkafyrirtæki, þótt aðstöðugjaldið sé fellt niður. Á það er bent í því sambandi að landsútsvarið sé fast, það sé ákveðið sérstaklega í lögum. Hins vegar séu einungis heimildir er varða aðstöðugjaldið og reyndar sé það svo að sveitarfélögin geti sjálf ákveðið hlutföll í því sambandi. Einnig er á það bent að tryggingagjaldið, sem ég veit að hv. 8. þm. Reykn. þekkir, er lagt á með þeim hætti að það mismunar í raun fyrirtækjum eftir því í hvaða grein fyrirtækin eru.
    Varðandi landsútsvarið ber að taka það fram að landsútsvarið er einungis lagt á olíufélög, banka, innlánsstofnanir og auk þess opinber fyrirtæki og það má kannski geta þess til gamans að svo kann að fara að eitt af opinberu fyrirtækjunum verði notað til málaferla, þ.e. Áburðarverksmiðja ríkisins. Menn geta þá velt því fyrir sér hver niðurstaðan verður ef Vinnuveitendasambandið vinnur málið því að það mundi aflétta gjöldum af opinberum aðilum en opinberir aðilar borga bróðurpartinn af landsútsvarinu og það mundi að sjálfsögðu bitna á Jöfnunarsjóði sveitarfélaga. Ég hygg nefnilega að þegar grannt er skoðað, þá standist löggjöfin, verði þetta frv. að lögum, en það breytir hins vegar ekki því að um millibilsástand verður að ræða og ég tel sjálfsagt að um leið og skoðað verður hvernig skattkerfið á að líta út, bæði tekjustofnalögin og tekju- og eignarskattslögin, þá verði að sjálfsögðu að takast á við landsútsvarið og taka ákvarðanir um framhald þess máls. Það er rétt sem kom fram hjá hv. þm. að um millibilsástand verður að ræða a.m.k. á næsta ári en að því er stefnt að á þarnæsta ári, árinu 1994, verði gengið í gildi nýtt kerfi sem unað verði við til einhverrar framtíðar.