Tekjustofnar sveitarfélaga

88. fundur
Þriðjudaginn 22. desember 1992, kl. 03:01:31 (4118)

     Halldór Ásgrímsson (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Það er út af fyrir sig gagnleg umræða sem hér fer fram og mikilvæg skoðanaskipti í mikilvægum málum. Hæstv. viðskrh. sagði að þetta mál leystist af sjálfu sér, þ.e. tekjur ríkissjóðs af Sementsverkmsiðjunni falla niður. Það leysist af sjálfu sér. Ég skildi hann þannig að það mundi líka leysast af sjálfu sér varðandi Íslenska járnblendifélagið. Það yrði einfaldlega fellt niður. (Gripið fram í.)
    Þá standa eftir bankar og sparisjóðir. Stór hluti af því kemur frá ríkisbönkum sem auðvitað væri hægt að innheimta með öðrum hætti en þessum vafasama hætti. Að því er

varðar olíufélögin væri að sjálfsögðu hægt að innheimta það með beinni álagningu á þær vörur sem olíufélögin selja. Með þeim hætti væri ekki tekin nein áhætta. En ríkisstjórnin kýs að taka áhættu að því er varðar jafnræðisreglur stjórnarskrárinnar, veit það að hún lendir í málaferlum, neitar því að taka skynsamlegar ákvarðanir og segir að hún sé jafnvel að hugsa um að taka skynsamlegar ákvarðanir á næsta ári. Ég er ekkert viss um að henni endist líf til þess að taka skynsamlegar ákvarðanir á næsta ári. Það eiga menn aldrei að gera, hæstv. viðskrh. Ef menn telja að þeir geti tekið skynsamlegar ákvarðanir á morgun þá eiga menn að gera það en bíða ekki með það fram á næsta ár. Þá mun það trúlega vera of seint. Ég hélt að hæstv. viðskrh. væri orðinn svo lífsreyndur maður og skynsamur í skattamálum að hann léti ekki slíkt henda sig.