Tekjustofnar sveitarfélaga

88. fundur
Þriðjudaginn 22. desember 1992, kl. 03:08:48 (4122)

     Ólafur Ragnar Grímsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Það er alveg rétt hjá hæstv. viðskrh. að ég var á sínum tíma tilbúinn til að fara í ýmsa leiðangra til að afla ríkissjóði tekna þó einhverjir fegurðargallar væru á því farartæki sem maður settist upp í. En ef stjórnarandstaðan hefði boðið mér öruggt farartæki, sem ég kæmist með vissu á leiðarenda með þann farangur sem ég ætlaði mér að ná í, 0,5 milljarð, ef ég hætti við það farartæki sem ég ætlaði upphaflega með, þá hefði ég örugglega tekið farartæki stjórnarandstöðunnar en því hefur einmitt verið neitað í þinginu. Það óvenjulega er að við höfum verið að benda á miklu skynsamlegri og öruggari leiðir, hæstv. viðskrh., sem mundu jafna samkeppnisstöðu bankakerfisins strax.
    Hæstv. ráðherra gerði hins vegar lítið úr því að það yrði ekki fyrr en 1995 sem reyna mundi á samkeppnisstöðu íslenska bankakerfisins gagnvart opnun fjármálamarkaðarins en það er eins og mig minni, hæstv. ráðherra, að frá og með næstu áramótum muni verða stigin ákveðin skref í þeim efnum þar sem erlendir bankar hafa þá möguleika á að stofnsetja hér útibú o.s.frv. Það mun því væntanlega að einhverju leyti reyna á það strax á því ári sem við erum að tala um, 1993.