Tekjustofnar sveitarfélaga

88. fundur
Þriðjudaginn 22. desember 1992, kl. 03:19:55 (4125)


     Viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Það er að vísu aðdáunarvert að halda áfram umræðum um jafnræðisregluna í skattalögunum á þessum tíma sólarhrings. (Gripið fram í.) Já. Ég tek undir með þeim sem hér hafa talað og bent á að það séu á ýmsan hátt athyglisverðar umræður sem hér fara fram. Auðvitað söknum við hæstv. fjmrh. því að til hans vil ég að

sjálfsögðu vísa sem flestum af þeim lögfræðilegu álitaefnum sem hér hafa verið nefnd.
    Ég vildi þó segja um jafnræðisregluna og það að halda eftir landsútsvarinu þótt aðstöðugjaldið sé lagt niður að forsendur fyrir því og fordæmi er ekki eingöngu að sækja, að mínu áliti, í mishátt tryggingagjald heldur líka í ákaflega mishátt aðstöðugjald eftir sveitarfélögum, sem hv. 1. þm. Austurl. ekki nefndi. Hann var reyndar líka svo hjálplegur að nefna til sögunnar þá skattlagningu sem kannski helst væri að leggja að jöfnu við það að halda landsútsvarinu en það er einmitt hinn sérstaki tímabundni skattur á verslunar- og skrifstofuhúsnæði sem lagður hefur verið á samfleytt í 15 ár og hv. 1. þm. Austurl. hefur samþykkt jafnmörgum sinnum að ég hygg.
    Þetta finnst mér eiginlega nægja hvað þetta mál varðar. Þetta er um formhlið málsins. Um efnishlið málsins vil ég taka undir að ástæða sé til að reyna að láta sams konar reglur gilda um allar atvinnugreinar. En þegar verið er að afla tekna til ríkisins verða menn stundum að láta sig hafa það að fresta sumu af því sem þeir helst vildu koma í verk sem fyrst. Þetta er í raun og veru það sem segja þarf.
    Að það sé eitthvað handahófskennt að breyting á einu fyrirtæki í hlutafélag geti valdið því að skattar á því breytist tel ég hins vegar alls ekki athugavert. Ég vildi í því sambandi leyfa mér, virðulegi forseti, að rifja upp það sem samþykkt var á 22. flokksþingi Framsfl. í lok nóvember. Í ályktun um ríkisfjármál segir einmitt að það sé mikilvægt að stefna að því að rekstrarskilyrði og rekstrarform opinberra fyrirtækja verði sem líkust því sem tíðkast um önnur fyrirtæki í landinu. Undir þetta sjónarmið tek ég heils hugar og tel að sú stefna sem hér var nokkuð að vikið af hv. 1. þm. Austurl., að breyta nokkrum atvinnufyrirtækjum ríkisins í hlutafélög, sé í fullkomnu samræmi við samþykkt 22. flokksþings Framsfl.