Tekjustofnar sveitarfélaga

88. fundur
Þriðjudaginn 22. desember 1992, kl. 03:26:57 (4128)


     Viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson) :
    Virðulegi forseti. Hv. 5. þm. Vestf. spyr hvort áætlanir hafi verið uppi um að bæta Jöfnunarsjóði sveitarfélaga það sem hann kynni að missa við það að Áburðarverksmiðju og Sementsverksmiðju verði breytt í hlutafélög. Ég ætla ekki að fara um það mál neinum nákvæmum orðum en það er hluti af því máli sem við erum hér að ræða, þ.e. þá breytingu á skattlagningu sem áformuð er með afnámi aðstöðugjalds og þess að finna staðgengil fyrir það. Þar hefur verið talað um að finna leiðir til þess að jafna tekjur sveitarfélaga vegna þeirra breytinga í heild. Þetta er náttúrlega í eðli sínu ekki hlutur sem verður veginn á póstmannsvog. Það þarf að líta á málið í heildarstærðum þess og stóru línum. En ég leyfi mér að fullyrða að ekki mundi verða áfall fyrir jöfnunarsjóðinn þótt af þessum breytingum yrði.
    Ég leyfi mér líka að benda á það að ef ég hef skilið málflutning hv. stjórnarandstæðinga sem hér hafa talað, þá hafa þeir einkum mælt með því að ekki eingöngu aðstöðugjaldið yrði lagt niður heldur líka landsútsvarið í heild. Þar með er að sjálfsögðu kominn upp fjárhagsvandi hjá jöfnunarsjóði sem ég lít þó á sem algjört aukaatriði í þessu máli því það eru mannasetningar sem tiltölulega auðvelt er að breyta. Þangað liggja margir straumar, og þaðan reyndar líka margir, sem ríkið og sveitarfélögin sameiginlega hafa á sínu valdi. Þetta er því ekki raunverulegt vandamál, heldur fyrst og fremst tiltölulega einfalt fyrirkomulagsatriði.