Almannatryggingar

89. fundur
Þriðjudaginn 22. desember 1992, kl. 11:43:49 (4135)

     Heilbrigðisráðherra (Sighvatur Björgvinsson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þm. fyrir ýmsar athyglisverðar ábendingar. Þó var einn þáttur í ræðu þingmannsins sem ég kemst ekki hjá að fara nokkrum orðum um en það var þegar hún ræddi um hina heilögu kú, persónuafsláttinn. Eins og kunnugt er þá var sú breyting gerð í meðförum mála hér á hinu háa Alþingi að fallið var frá hugmyndum um breytingu á barnabótum og barnabótaauka en þess í stað lækkaður persónuafslátturinn.
    Ég hlustaði með athygli á hv. þm. þegar þingmaðurinn flutti ræðu sína þann 11. des. og ætla að leyfa mér að vitna til nokkurra orða sem hv. þm. sagði, með leyfi forseta:
    ,,Það er útmetinn hópur sérstaklega sem verður fyrir þessari ríkisstjórn, það er barnafólkið. Það er markhópurinn sem nú á endilega að ná í. Ég held að enginn geti mótmælt því að það er verið að hækka skatta á barnafólki með þeim aðgerðum sem ríkisstjórnin stendur núna fyrir.``
    Síðan segir þingmaðurinn: ,,Það er nákvæmlega sama hægt að færa upp á persónuafsláttinn eins og barnabæturnar, söm er gjörðin. En af hverju gera menn það ekki?`` spyr þingmaðurinn. ,,Af því það er pólitískt svo erfitt`` svarar þingmaðurinn. ,,Vildu menn standa hér og leggja það til að persónuafslátturinn væri lækkaður?`` spyr þingmaðurinn og hann svarar sjálfum sér: ,,Ég held að menn hafi metið það þannig að það væri svo erfitt pólitískt og þess vegna er tekinn út svona hópur.``
    Síðan segir þingmaðurinn orðrétt: ,,Það er undarlega auðvelt í þessu samfélagi að hræra í framfærslukostnaði barna. En þegar ég segi þetta með persónuafsláttinn þá er ég að benda mönnum á að það er sama gjörðin sem er verið að gera, þ.e. hvort menn fara og ráðast á persónuafsláttinn eða barnabæturnar. Þar með er ég ekki að leggja til að sú leið verði farin. Það er ekki mín skoðun í þessu máli,`` segir þingmaðurinn að vísu en bætir svo við ,,heldur er ég að benda þeim á að það væri í rauninni miklu réttlátari aðgerð að láta þetta ganga yfir alla, barnafólk sem barnlausa.``
    Þetta sagði hv. þm. þann 11. des. og ég vek athygli á að þarna vekur hv. þm. athygli á því hvort það eigi ekki heldur að taka upp lækkun persónuafsláttar frekar en breytingu á barnabótum og barnabótaauka. Það hefur verið gert þannig að það var hlustað á rök hv. þm. í þessu efni.