Almannatryggingar

89. fundur
Þriðjudaginn 22. desember 1992, kl. 11:46:07 (4136)

     Ingibjörg Sólrún Gísladóttir (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Þetta segir ráðherra annaðhvort af stráksskap eða þá hann les ræður mínar og hlustar á þær eins og andskotinn biblíuna. Ég sagði ,,söm er gjörðin``, virðulegur ráðherra, ,,söm er gjörðin`` og hún er söm. Það þýðir ekki að ég hafi lagt þetta til eins og kemur reyndar skýrt fram í ræðu minni og ég telji að það sé gott, en söm er gjörðin. Ég tel að ólíkt meiri manndómur felist í því þó að koma og leggja þetta yfir alla og ég er alveg sannfærð um að það vekur miklu harðari viðbrögð úti í samfélaginu, þetta snertir jú miklu fleiri og það er mun líklegra að við náum upp öflugri baráttu gegn þessu heldur en gegn skerðingu barnabótanna. Að því leytinu til finnst mér það ekki verri kostur pólitískt að þetta skuli hafa verið niðurstaðan í nefnd. En ég sagði, og það kom skýrt fram, að þetta væri ekki mín tillaga heldur væri ég að benda á að söm væri gjörðin. Þarna væri þá verið að sækja í persónuafslátt allra, hækka skatta allra með því móti. Hin leiðin sem fara átti, að krukka í barnabæturnar, hefði einungis lent á barnafólkinu og það er einhvern veginn svo undarlega létt að höggva alltaf í þann knérunn. Mér virðist sem mótmælin við því séu ekki mjög öflug.