Almannatryggingar

89. fundur
Þriðjudaginn 22. desember 1992, kl. 11:48:58 (4138)


     Ingibjörg Sólrún Gísladóttir (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Ja, mikið er vald mitt hér í þinginu ef ég get með því að setja slíkar tilvísanir í orð fengið heila ríkisstjórn og tvo stjórnarflokka til þess að breyta um afstöðu í svona stóru máli. Þá er mitt vald orðið mikið og eins gott að fara að hugsa sinn gang í þinginu.
    Ef menn hlusta svona grannt eftir því sem ég segi þá vil ég spyrja hvers vegna í ósköpunum standi á því að þeir taki þá ekki allan pakkann. Af hverju fluttu þeir ekki þessar 500 millj. sem þeir spöruðu þarna, þær hafa að vísu minnkað eitthvað í meðförum, í mæðralaununum og feðralaununum og fluttu þær yfir í barnabótaaukann? Það þýðir náttúrlega ekkert að koma hér og segja: Við tókum þínar hugmyndir vegna þess að þær voru svona góðar og gerðum þær að okkar. Þetta er auðvitað eins og hver annar útúrsnúningur. Það veit ráðherrann vel enda stendur hann með stráksglott á vörum undir vegg. Hann hefði þá átt að taka fleira af því sem ég lagði til, taka allan pakkann, vegna þess að annars er auðvitað ekkert réttlæti í þessu, virðulegur ráðherra. Og ég legg á það áherslu, ég sagði ,,söm er gjörðin`` og hún er söm og ég segi, það er þá meiri pólitískur manndómur í því fólginn að ganga á alla heldur en að taka einn útmetinn hóp eins og barnafólk og ráðast á hann ár eftir ár í þinginu. Það er þó meiri pólitískur manndómur. En mesti manndómurinn hefði verið sá að hækka persónuafsláttinn og hækka skattprósentuna. Það hefði verið sú aðgerð sem mesti manndómur hefði verið að og hefði verið sanngjörnust fyrir alla aðila.