Almannatryggingar

89. fundur
Þriðjudaginn 22. desember 1992, kl. 12:59:08 (4143)


     Svavar Gestsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég verð að segja að ég hef dálítið gaman af því að það er bersýnilegt að hv. 5. þm. Vestf. hefur tekist að haga málflutningi sínum með þeim hætti að hæstv. heilbr.- og trmrh. hefur neyðst til að taka eftir honum og taka tillit til hans í vetur. Það er auðvitað ekkert nýtt, eins og hæstv. heilbr.- og trmrh. veit, að tekið sé eftir þingmönnum Vestfjarða og það væri satt að segja nokkur nýlunda ef hitt gerðist. Maður hefur að vísu séð það gegnum söguna að einn og einn þingmaður Vestfjarða hefur verið heldur daufur í dálkinn hér en það er sem betur fer undantekning en ekki regla.
    Ég vil fyrst víkja að þessu samkomulagi við Samband ísl. sveitarfélaga og þaki upp á 300 millj. og segja það að ég tel að kalla eigi til Samband sveitarfélaga, fjmrn., dómsmrn., heilbrrn. og félmrn. til þess að taka á þessum meðlagsmálum heildstætt. Ég legg áherslu á að það sem kallað er Félag forræðislausra foreldra verði líka kallað til samráðs. Heilbr.- og trn. ræddi við þann hóp í gær og það voru ágætar umræður.
    Varðandi málið að öðru leyti, sem snýr að meðlögunum, er það þannig að ríkisstjórnin hefur verið að leita að heppilegum skattstofni. Það er búið að hengja mikla skatta á tekjurnar. Það er búið að ákveða að skattleggja lyfin meira, tannlæknaþjónustuna, sérfræðiþjónustuna o.s.frv. Þegar allt þetta er búið er farið með kastljós út um allt þjóðfélagið. Og hverjir finnast þar? Meðlagsgreiðendur. Staða þeirra hefur langbest komið fram í þessari frægu tilvitnun í hæstv. heilbrrh.: Meðlag er ekki tekið af látnum mönnum.
    Staðan er þannig að þeir sem greiða meðlög eru látnir borga hvað sem tautar og raular, hvar sem þeir eru staddir í þjóðfélaginu, og þess vegna eru þeir tiltölulega heppilegur skattstofn. Það var þess vegna sem meðlögin voru hækkuð en ekki vegna sérstakrar umhyggju fyrir börnum eða þeim sem fyrir þeim sjá.