Kjaradómur og kjaranefnd

89. fundur
Þriðjudaginn 22. desember 1992, kl. 13:42:50 (4146)

     Frsm. minni hluta efh.- og viðskn. (Kristín Ástgeirsdóttir) :
    Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir nál. á þskj. 556 en ég er eini flm. þess. Það hljóðar svo, með leyfi forseta:
    ,,Á undanförnum mánuðum hefur komið æ betur í ljós hve launamál ríkisins eru í miklum ólestri. Dómurinn í BHMR-málinu, kjaradómurinn frá í sumar, kjaradeilur sjúkraliða og uppsagnir á sjúkrahúsunum sýna að þörf er endurskoðunar á samskiptum ríkisins við starfsmenn sína. Launakerfi ríkisins þarfnast gagngerrar endurskoðunar, enda er það óréttlátt og einkennist af miklum feluleik. Launakjör kvenna, sem starfa hjá ríkinu, eru óviðunandi eins og reyndar margra þeirra sérmenntuðu hópa sem hjá ríkinu vinna.
    Það frv. til laga um Kjaradóm og kjaranefnd, sem hér er til umræðu, er að vissu marki upphafið á endurskoðun á launakerfi ríkisins. Byrjað er á æðstu embættismönnunum, sem auðvitað er að byrja á öfugum enda, en það skýrist af því mikla moldviðri sem þyrlað var upp í kjölfar kjaradómsins sl. sumar.
    Hér er farin sú leið að setja forseta Íslands, ráðherra, biskup Íslands, alþingismenn, hæstaréttardómara og héraðsdómara undir Kjaradóm eins og áður, en síðan er sett upp önnur nefnd sem fjallar um laun og starfskjör fjölda yfirmanna ríkisstofnana. Laun presta verða ákveðin af kjaranefnd en þeir eru eina stéttin sem heyrir undir hana.
    Fulltrúi Kvennalistans í efh.- og viðskn. hefur ýmislegt við þá leið að athuga sem hér er farin.
    Í fyrsta lagi er ég þeirrar skoðunar að semja eigi um kjör starfsmanna ríkisins í kjarasamningum, annarra en þeirra sem setja lög og dæma eftir lögum og verða að vera óháðir ytri hagsmunum svo framarlega sem það er hægt.
    Í öðru lagi er hér haldið áfram á þeirri vafasömu braut sem viðheldur hinu tvöfalda launakerfi æðstu embættismanna með ýmiss konar sporslum, álagi og tilleggi meðan grunnlaun eru lág.
    Í þriðja lagi kom í ljós við meðferð málsins að þörf er á endurskoðun og samræmingu laga sem snerta launakjör ríkisstarfsmanna og kjörinna fulltrúa, þar með talin lög um þingfararkaup.
    Á móti kemur að t.d. prestar, sem hafa átt undir högg að sækja í launamálum, sætta sig vel við þá leið sem hér er farin og þrýsta mjög á um að málið komist í höfn fyrir jólahátíðina.
    Þetta frv. býður upp á ákveðna lausn á þeim vanda sem uppi er hjá hluta ríkisstarfsmanna en hætt er við að fast verði sótt að komast í þennan útvalda hóp af ýmsum þeim sem telja sig eiga þar heima. Þótt ég sé ekki sátt við þessa aðferð er ljóst að embættismenn vilja viðhafa þetta form á launaákvörðunum.
    Nauðsynlegt er og sjálfsagt að hefja endurskoðun og samræmingu þeirra laga sem snerta launakjör m.a. þingmanna strax á næsta ári sem þá verða skoðuð í samhengi við það frv. sem hér er til meðferðar ef að lögum verður. Þingkonur Kvennalistans beina þeim eindregnu tilmælum til forsætisnefndar Alþingis að hún eigi frumkvæði að því starfi.
    Í ljósi alls þessa munu þingkonur Kvennalistans sitja hjá við afgreiðslu þessa máls.``