Framleiðsla og sala á búvörum

89. fundur
Þriðjudaginn 22. desember 1992, kl. 14:16:32 (4153)


     Páll Pétursson :
    Frú forseti. Aðeins örfá orð. Ég hef ákveðnar efasemdir um sum ákvæði frv. Með því er veitt heimild til að leggja verulegar byrðar á bændur vegna markaðsaðgerða. Ég geri mér að sjálfsögðu grein fyrir því að það þýðir lítið að framleiða ef varan selst ekki. En hér er um talsvert fé að ræða og væri betra að það væri skynsamlega og hóflega notað. Jafnframt vil ég minna á að hagur sauðfjárbænda er yfirleitt með þeim hætti að ekki er fýsilegt að leggja verulegar viðbótarskerðingar á launalið þeirra. Tekjur bænda hafa hrapað á undanförnum árum, búin hafa minnkað og mjög mikið og vaxandi dulið atvinnuleysi er í mörgum sveitum landsins. Ég ætla ekki að orðlengja um hvað rætur eru að þessu en sauðfjárframleiðslan býr við framleiðslustjórnun meðan aðrar kjötframleiðslugreinar búa ekki við hliðstæða stjórn. Reynslan hefur orðið sú að stöðugt hefur hallað á sauðfjárframleiðsluna. Sauðfjárbændur fá tilkynningu árlega um verulega skerðingu frá því magni sem þeir máttu framleiða árið áður. Þetta hefur jafnvel komið óvænt og ofan í viðbótarskerðingar og fyrri ákvarðanir. Staða þeirra er orðin ákaflega veik.
    Nú gætu menn kannski sagt sem svo: Því hætta ekki mennirnir og reyna að fá sér eitthvað annað að gera. Ástandið á vinnumarkaðnum er þannig að menn hafa ekki að miklu að hverfa og hlaupa ekki lengur í sæmilega launuð störf fyrirvaralítið auk þess sem þeir þyrftu þá að ganga frá eignum sínum og koma sér upp heimili á nýjum stað. Ég held að framleiðslustjórnunin í landbúnaðinum sé á villigötum. Ég er ekki með neitt lausnarorð um hvernig hægt væri að bæta ástandið til muna, en ég vil láta það koma fram hér og nú að ég er engan veginn ánægður með stöðu mála. Ég held að þessi stjórnun hafi tekist hörmulega á undanförnum árum þó ég dragi ekki efa að flestallir sem að henni hafa komið hafi viljað vel og reynt að gera sitt besta.
    Ég vildi láta það koma fram í umræðunni að ég er ekki ánægður með stöðu mála. Það er ekki tími til þess í dag í miklu annríki að setja á langar ræður um landbúnaðarmál en ég tel ástæðu til þess fyrir Alþingi að gefa sér tíma þegar við komum saman að loknu jólahléi að taka til gaumgæfilegrar umræðu stöðu þessarar atvinnugreinar og framtíð hennar. Við höfum ekki talað mikið um landbúnaðarmál á þinginu. Þau eiga ekki að vera neitt feimnismál og við eigum að vera menn til að ræða saman um þau og leita lausna sem gætu verið bærilegar fyrir þjóðfélagið og fyrir bændastéttina.
    Þetta vildi ég, frú forseti, að kæmi fram hér við þessa umræðu þrátt fyrir að ég viðurkenni að margt í þessu frv. er nauðsynlegt með tilliti til þess sem áður hefur verið gert en ég vildi láta koma fram efasemdir um einstök atriði.