Grunnskóli

89. fundur
Þriðjudaginn 22. desember 1992, kl. 14:21:45 (4154)

     Kristín Ástgeirsdóttir :
    Virðulegi forseti. Sá bunki sem ég hef í höndum sýnir það hve stórt þetta mál er sem er til umræðu og ég hafði svo sannarlega hugsað mér að halda langa og ítarleg ræðu um þetta mál. En í ljósi þess samkomulags sem hefur verið gert um þinglok ætla ég mjög að stytta mál mitt, enda sit ég í þeirri nefnd sem mun fjalla um þetta mál og þar getum við farið mjög rækilega ofan í stöðu grunnskólans eftir þær breytingar sem samþykktar voru fyrr á þessu ári. Eins boða ég hér með að ég mun ræða þetta mál mjög ítarlega við 2. umr. málsins.
    Hér er um það að ræða, virðulegi forseti, að verið er að framlengja þær ákvarðanir sem teknar voru í upphafi ársins og samþykktar í svokölluðum bandormi. Þar er um að að ræða að frestað var ýmsum ákvæðum grunnskólalaga. Í fyrsta lagi var því frestað að nemendur eigi kost á málsverði á skólatíma. Í öðru lagi var því frestað að lengja kennslutíma nemenda eins og gert var ráð fyrir. Ef ég man rétt var það misjafnlega mikið eftir bekkjardeildum. Í þriðja lagi er því frestað að fækka nemendum í bekkjum í samræmi við ákvæði grunnskólalaga.
    Ég heyrði það á stjórnarliðum þegar verið var að ræða þetta mál að þeim fannst þetta lítilvægt, þetta væri bara framlenging og hvað ætluðu menn að fara að æsa sig yfir þessu. En staðreyndin er sú, virðulegi forseti, að að mínu dómi er það eitt brýnasta mál þings og þjóðar hvernig búið er að grunnskólabörnum í okkar landi. Ég hef undir höndum skýrslu um málefni barna og ungmenna þar sem er að finna margar athyglisverðar staðreyndir um stöðu barna og ungmenna, bæði hvað varðar félagslegan aðbúnað, næringu og fleira sem að þeim snýr. Í sumar var haldin hér norræn ráðstefna sem m.a. fjallaði um slæma stöðu barna á Norðurlöndum. Þar var verið að skoða ýmislegt sem að er og snertir börn og ungmenni og ekki voru upplýsingarnar um Ísland glæsilegar, því miður.
    Því meira sem rannsakað er þeim mun betur koma í ljós þær miklu breytingar sem hér hafa orðið á heimilishögum sem því miður bitna í allt of ríkum mæli á börnum. Þetta kemur m.a. fram í því að mjög mörg börn eru vegalaus og fá enga umhyggju. Fjöldi barna verður að sjá um sig sjálfur meira og minna og gæta yngri systkina sinna vegna vinnutíma foreldra og ýmiss konar félagsleg vandamál steðja að börnum og unglingum. Því miður hefur skólakerfið og ríkisvaldið ekki brugðist við breyttum aðstæðum og komið til móts við breyttan veruleika með því að sjá til þess að börn fái þá næringu sem þau þurfa, þau eigi kost á gæslu meðan á vinnutíma foreldra stendur og að þau fái félagslega og sálfræðilega þjónustu í þeim mæli sem þau þurfa á að halda.
    Að mínum dómi er sú staða sem við stöndum frammi fyrir í málefnum barna og unglinga eitthvað það alvarlegasta sem upp er komið í okkar samfélagi. Því hlýt ég enn á ný að ítreka það sem við sögðum í umræðunni í upphafi ársins að þær aðgerðir sem hér er verið að leggja til og eiga að spara einhverja tugi milljóna, eða spara ríkissjóði a.m.k. 100 millj. á árinu 1993 eins og segir í frv., er dýrkeyptur sparnaður að mínum dómi og hörmulegt upp á að horfa að ríkisstjórnin skuli leita í þann vasa sem síst skyldi. Ekki aðeins vegna barnanna sjálfra og þeirra vellíðunar heldur ekki síður vegna framtíðar íslensku þjóðarinnar. Það er samdóma álit allra þeirra sem huga að framtíðinni, hvort sem það er í Evrópu eða Bandaríkjunum, að góð menntun sé undirstaða bættrar framtíðar, betri framtíðar og þess að við getum tekið á þeim vandamálum sem við okkur blasa í veröldinni, hvort sem þau snerta umhverfið eða félagsleg vandamál, eiturlyfjaneyslu eða hvað sem þar er um að ræða. Menn trúa því að menntakerfið geti bætt þar úr og að leiðin til þess að leysa vandamál framtíðarinnar sé í gegnum menntun, rannsóknir, vísindi og bættan aðbúnað barna og ungmenna og stuðning við þau.
    Hér er valin þveröfug leið. Hér á að endurtaka það sem ákveðið var í upphafi þessa árs. Ég er algerlega andvíg því og í ljósi þess að menn voru að hækka framlög til varnarmálaskrifstofu utanrrn., svo dæmi sé nefnt, get ég ekki annað en mótmælt sparnaði sem hér á að framlengja, en ég mun kanna þetta mál rækilega í hv. menntmn. þegar þar að kemur og fylgja því eftir við 2. umr.