Skattamál

89. fundur
Þriðjudaginn 22. desember 1992, kl. 15:18:12 (4164)

     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Í fyrsta lagi voru vaxtabætur ekki skertar á yfirstandandi ári þannig að það er rangt hjá hv. ræðumanni að svo hafi verið gert. Varðandi barnabætur er það auðvitað augljóst mál að skerðing barnabóta á yfirstandandi ári framkallaðist í hærri tekjuskatti á yfirstandandi ári og það sést í fjárlögum yfirstandandi árs og í innheimtu tekna. Það er ekki hægt að blekkja neinn með því, tölurnar tala þar sínu skýrasta máli.
    Í öðru lagi er ég ekki sömu skoðunar og hv. þm. um þjónustugjöldin. Ég tel til að mynda að það séu ekki skattar þegar einstaklingur sem nýtur tiltekinnar opinberrar þjónustu greiðir hærra hlutfall en hann gerði áður fyrir þá þjónustu. Um það getum við deilt. En í mínum huga og langflestra annarra sem um þessi mál fjalla, þar á meðal t.d. starfsbræðra minna á Norðurlöndum, er þetta ekki skattheimta heldur aukin þjónustugjöld og á því er gerður heilmikill munur.
    Í þriðja lagi vil ég segja að í frv. ríkisstjórnarinnar er lækkun á sköttum 1994, þar á meðal lækkun á sköttum fyrirtækja sem ekki er tekið tillit til í Alþýðusambandsplagginu. Og loks vil ég segja það að auðvitað tala hagfræðingar Alþýðusambandsins, Vinnuveitendasambandsins og fjmrn. saman og það er þeim mun hörmulegra að þetta skyldi gerast þegar ljóst er að það liggja fyrir beinharðar staðreyndir sem eru aðrar en þær sem koma fram á þessu blaði vegna þess að það er völdum staðreyndum raðað upp á blaðinu. Og vegna þess að hv. þm. var að segja að það væri bara verið að tala um þetta á einhverjum ársgrundvelli þá segir á þessu minnisblaði: ,,aukna skattheimtu ríkissjóðs vegna efnahagsaðgerða ríkisstjórnarinnar`` og punktum og basta. Það er ekkert annað sem stendur á þessu blaði og sá sem les blaðið getur þess vegna haldið að hér sé verið að taka tillit til allra staðreynda en því miður þá er það ekki gert.
    Ég er með mínu máli, herra forseti, síður en svo að ráðast á einn eða neinn. Ég er að benda á að okkur er nauðsyn í þessum umræðum að hafa það sem sannara reynist, nógu miklir eru erfiðleikarnir samt.