Skattamál

89. fundur
Þriðjudaginn 22. desember 1992, kl. 15:20:40 (4165)

     Halldór Ásgrímsson (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Það er ávallt rétt, hæstv. fjmrh., að hafa það sem sannara reynist. Ég man nú ekki eftir að hæstv. fjmrh. hafi viðurkennt það fyrr að breyting á barnabótum sé skattahækkun. Ég man ekki eftir að hann gerði það hér á sl. vetri. Hvað svo sem menn kalla þjónustugjöld þá getum við væntanlega orðið sammála um það, hæstv. fjmrh., að það skerðir kaupmátt ráðstöfunartekna. Og það sem skiptir máli nú er að sjálfsögðu hver er kaupmáttur ráðstöfunartekna fólks. Hvort ákveðin gjöld eru kallaðir skattar eða þjónustugjöld, ég ætla ekki að fara út í deilur um það. Sjálfsagt má fara mörgum orðum um það en hér er um að ræða skerðingu á ráðstöfunartekjum fólks. Ég verð að segja það, hæstv. fjmrh., að það kemur mér svo sannarlega á óvart líka að fjmrh. landsins skuli leyfa sér að halda því fram að verkalýðshreyfingin hafi viljað skattleggja almenning í landinu með miklu harðskeyttari hætti en núv. ríkisstjórn. Það var það sem hæstv. fjmrh. var að segja hér áðan. Það var sá tónn sem forsrh. sendi þingi ASÍ á Akureyri. Er nema von, hæstv. fjmrh., að þessi samskipti séu komin í hnút. Er nema von að t.d. Farmanna- og fiskimannasamband Íslands skuli hafa lýst því yfir að ríkisstjórnin sé að stefna í harkaleg kjaraátök. Og ef hæstv. fjmrh. trúir ekki okkur í stjórnarandstöðunni eftir að hafa hlustað á talsmenn þessara samtaka þá trúir hann

væntanlega formanni Farmanna- og fiskimannasambands Íslands sem situr í hans eigin þingflokki og hefur væntanlega staðið fyrir þeirri samþykkt sem gerð var í gær og birt var í fjölmiðlum í dag eftir því sem ég best veit.
    Ég held að það sé alveg nauðsynlegt, hæstv. fjmrh., að það komist á betra samband milli ríkisstjórnarinnar og þessara samtaka því það getur ekki verið að menn tali mikið saman þegar hæstv. fjmrh. talar í þessum tón hér á Alþingi.