Skattamál

89. fundur
Þriðjudaginn 22. desember 1992, kl. 15:23:15 (4166)

     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Í fyrsta lagi varðandi þjónustugjöld og ráðstöfunartekjur. Það er nú spurningin hvað við köllum ráðstöfunartekjur. En í skilningi fjárlaga og skilningi sem venjulega er viðhafður þegar rætt er um ráðstöfunartekjur þá er verið að tala um atvinnutekjur mínus skatta. Þannig að þjónustugjöld a.m.k. í ,,teoríunni`` hafa ekki áhrif á ráðstöfunartekjur af því að þjónustugjöld eru ekki skattar í þessum skilningi. Um það m.a. snýst þetta mál því fólk getur oft valið um það hvort það grípur til þessarar persónulegu þjónustu eða ekki.
    Í öðru lagi minntist ég aldrei á harðskeyttari hátt hjá Alþýðusambandinu. Ég hins vegar benti á að í fyrirliggjandi plöggum frá Alþýðusambandinu væri gert ráð fyrir því að skófla til sköttum í meiri mæli heldur en ríkisstjórnin hefði gert. Og ég get nefnt niðurstöðutölurnar. ( HÁ: Þá var engin gengisbreyting.) Alveg hárrétt, ég kem að því. Niðurstöðutalan varð sú að tæpir 8,8 milljarðar áttu að flytjast yfir á einstaklingana. En það er hárrétt hjá hv. ræðumanni Halldóri Ásgrímssyni, hv. 1. þm. Austurl., að þá var gengisfellingin ekki inni í myndinni. En ég vona að við séum þó sammála um það að eins og sakir stóðu hinn 23. nóv. var gengisfellingin óhjákvæmileg. Um það hljótum við þó að vera sammála þó við séum ekki sammála um allt alltaf. Sem betur fer er það nú oftar en ekki sem við erum það þó.
    En vegna sambandsins við verkalýðshreyfinguna vil ég segja það að lokum, hæstv. forseti, að ríkisstjórnin er nú sem endranær tilbúin til að eiga viðræður og vill eiga gott samband við bæði verkalýðssamtökin í landinu og atvinnurekendur því við vitum að við komumst ekki út úr okkar kröggum, okkar vandræðum, nema það samband sé byggt á gagnkvæmu trausti og að því vill ríkisstjórnin vinna.