Skattamál

89. fundur
Þriðjudaginn 22. desember 1992, kl. 15:25:22 (4167)

     Frsm. minni hluta efh.- og viðskn. (Kristín Ástgeirsdóttir) (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Við viljum stefna að góðu samstarfi, segir hæstv. fjmrh. En varaformaður Dagsbrúnar komst svo að orði, eins og ég tók fram hér áðan, að það stefndi í botnlaus átök á vinnumarkaði. Þannig að það er nú vandséð hvar þessi góðu samskipti eiga að fara fram eða hvernig þau koma í ljós.
    En vegna orða fjmrh. hæstv. hér áðan þá er það ríkisstjónin sem ber ábyrgð á sínum tillögum og því sem hér er verið að samþykkja. Og það bætir ekkert hennar stöðu þó að ASÍ hafi komið fram með einhverjar tillögur sem hugsanlega voru verri. Það bætir ekki stöðu ríkisstjórnarinnar, hennar er ábyrgðin. Ég get tekið undir það að mér leist nú ekki á allt sem var til umræðu hjá hinni svokölluðu atvinnunefnd. En ég spyr: Voru engar jöfnunaraðgerðir inni í því dæmi? Voru engar jöfnunaraðgerðir sem ASÍ lagði til? Þær er ekki að finna í tillögum ríkisstjórnarinnar. Hér er bara skattlagt beint og aukin sakttbyrði en það eru engar jöfnunartillögur þar á móti. Og ég vil líka spyrja hæstv. fjmrh.: Hvað er rangt í þessum tölum Alþýðusambandsins? Það er ekki verið að fullyrða hér eitt eða neitt. Hér eru bara upplýsingar um þessa auknu skattheimtu, hverju er verið að bæta við og greint hér í almenna skattheimtu og sértæka skattheimtu og síðan er þess getið hver hlutur afnáms aðstöðugjalds er og útgjöld vegna lækkunar tryggingagjalds. Þarna er ekki verið að fullyrða eitt eða neitt annað en það að niðurstöðutalan er 6.975.000 kr. í þessa skattheimtu. Hvað er rangt í þessu, fjmrh.? Hvað er rangt? Er hér eitthvað sem fer á milli mála? Þetta verður hæstv. fjmrh. að skýra. Og hann þarf líka að skýra fyrir okkur þá fullyrðingu sína að tölur ASÍ um samdrátt í kaupmætti upp á allt að 7% séu rangar. Hann verður að gjöra svo vel og skýra það. Þetta er auðvitað sú niðurstaða sem Alþýðusambandið hefur komist að. Og mín niðurstaða er sú, virðulegur forseti, að hér tala menn með vonda samvisku.