Skattamál

89. fundur
Þriðjudaginn 22. desember 1992, kl. 15:27:40 (4168)

     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Ég vil byrja á að segja við hv. þm. að ég hef ekki verri samvisku en svo að ég trúi því að hæstv. ríkisstjórn sé að gera það besta sem sé hægt að gera við þær aðstæður sem við lifum núna við. Mér er fullkunnugt um að þetta eru ekki vinsælar ráðstafanir en ég er fullviss um það að þegar tímar líða þá munu menn sjá að til þessara ráðstafana var nauðsynlegt að grípa.
    Ég svaraði því áðan hvað væri rangt í tölunum og það gerði reyndar hv. þm. Vilhjálmur Egilsson líka. Í fyrsta lagi er blandað saman skattheimtu ríkissjóðs vegna efnahagsaðgerða annars vegar og fjárlaganna hins vegar. Á það vil ég benda. Í öðru lagi er ekki tekið tillit til frádráttarliða sem ég hef bent á fyrr í mínum ræðum. Í þriðja lagi er blandað saman tveimur árum án þess að taka tillit til þess að um lækkun er að ræða á seinna árinu. Í fjórða lagi vil ég benda á að niðurfelling aðstöðugjaldsins á aðeins að gilda á næsta ári, þá tekur breyting við, þetta er bráðabirgðaástand. Og loks þegar talað er um heildarskattheimtuna þá er ekki tekið tillit til veltuáhrifanna sem ég hef minnst á fyrr í mínu máli.
    Það má vel vera að varaformaður Dagsbrúnar hafi komið á fund nefndarinnar og sagt að það stefndi í botnlaus átök. Og ég skal fyrstur manna taka undir það með hv. þm. að ríkisstjórnin ber að sjálfsögðu ábyrgð á þessum aðgerðum. En ég vonast til þess að jafnt Alþýðusambandið, verkalýðssamtökin og vinnuveitendur ásamt ríkisstjórninni og stjórnarandstöðunni, sem stundum í vetur hefur verið að reyna að sýnast ábyrg, standi þó saman um það að reyna að sigla okkur út úr þessum erfiðleikum og sýna að minnsta kosti þá sanngirni gagnvart ríkisstjórninni að fara rétt með tölur því það er undirstöðuatriði. Því ef röngum tölum er komið á framfæri eins og ég minntist á áðan þá trúir fólk því og það tekur langan tíma að leiðrétta þegar rangar tölur fara af stað.