Skattamál

89. fundur
Þriðjudaginn 22. desember 1992, kl. 16:12:07 (4178)

     Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Vilhjálmur Egilsson) (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Hv. 6. þm. Norðurl. e. mun kannski hafa forustu um að formaður Alþfl. fái að verða forsrh. eins og formaður hans bauð eftir síðustu kosningar.
    Hv. þm. talaði um að stjórninni hefði mistekist að treysta atvinnu. Við skulum aðeins skoða nokkrar staðreyndir. Við höfum heyrt tillögur um að leggja skatta á vexti. 20% skatt frá Alþb., síðan voru á floti tillögur í sumar að vegna aðstöðugjaldsins ætti að leggja 15% skatt á, samtals 35% skattur. Hvað hefði þetta þýtt fyrir atvinnuna? Þetta hefði eytt atvinnu, þetta hefði hækkað vexti og haft stórkostlega skaðvænleg áhrif á atvinnulífið í landinu. Ég vil benda á það að gengisfellingin var 6%. Þar af voru 3% vegna breytingar á myntum innbyrðis en síðan raunveruleg gengisfelling upp á 3%. Þetta styrkir að sjálfsögðu atvinnu. Þetta styrkir fyrirtækin. Síðan er aðstöðugjaldið fellt niður. Það hjálpar fyrirtækjunum, það hjálpar atvinnulífinu. Þá er verið að jafna virðisaukaskattinn en hann á ekki að koma á ferðaþjónustuna fyrr en í ársbyrjun 1994. Það gefst nægur tími þegar allt aðstöðugjaldsdæmið verður gert upp í heild til að gera ráðstafanir til að koma í veg fyrir að þetta bitni svo mikið á ferðaþjónustunni sem útflutningsgrein. Síðan er verið að setja inn hvata til eiginfjármyndunar í atvinnulífinu bæði innan fyrirtækjanna og eins er verið að viðhalda hlutabréfaafslættinum. Lífeyrissjóðirnir ætla að kaupa hlutabréf fyrir 1.800 millj. kr., þeir þyrftu þó að leggja fram miklu meira. En það sem fyrst og fremst mun tryggja atvinnuna á næsta ári er líka sá stöðugleiki sem ég veit að allir eru sammála um og enginn mun fara að kasta frá sér í einhverri vitleysu.