Skattamál

89. fundur
Þriðjudaginn 22. desember 1992, kl. 16:13:58 (4179)

     Jóhannes Geir Sigurgeirsson (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Það gleður mig að hv. 5. þm. Norðurl. v. er farinn að hugleiða hver verði næsti forsrh. Það segir mér að hann ætli þessari ríkisstjórn ekki langa lífdaga. Annað ,,komment`` gef ég ekki á þá yfirlýsingu hans. En við þurfum ekki, hv. þm., annað en skoða það litla sem við höfum séð frá Þjóðhagsstofnun um áhrif þeirra aðgerða sem nú er verið að grípa til þar sem kemur fram að þetta dregur saman þjóðarframleiðslu um 8--10 milljarða með samsvarandi samdrætti. Sú hámarksspá sem Þjóðhagsstofnun var með fyrir nokkrum vikum um atvinnuleysi er nú orðin lágmarksspá. Það segir okkur allt sem segja þarf um stöðuna í atvinnulífinu. Ég hef alla tíð stutt það að aðstöðugjaldið væri lagt niður. Ég hef ítrekað, bæði í blaðagreinum og í umræðu sem ég hóf í haust, lagt það til að við yrðum að færa kostnað af atvinnulífinu yfir á almenning. En ég er algerlega mótfallinn því hvernig það er framkvæmt og annað það að við vissum það allan tímann að sú leið væri ekki fær nema í nánu samstarfi við aðila vinnumarkaðarins, bæði launþega og atvinnurekenda. Það hefur mistekist og þess vegna blasir ekkert annað við en stórfelld átök ef ekki tekst að ná aftur samstöðu með stærstu hagsmunaaðilunum í þjóðfélaginu en hún er engin eins og er.