Skattamál

89. fundur
Þriðjudaginn 22. desember 1992, kl. 16:51:37 (4188)

     Jóhann Ársælsson (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Mér þykja þetta vera tíðindi. Hæstv. fjmrh. lýsir því yfir að hann vilji að fallið verði frá þessum hugmyndum. Ég taldi að þarna væri um að ræða loforð um að jafna þessa skerðingu og það breytir auðvitað engu um þá jöfnun hvort menn hafa fellt gengið eða fellt niður aðstöðugjaldið. Það er jafnmikill mismunur á milli þeirra sem fóru best út úr þessu og græddu á öllu saman og hinna sem urðu fyrir mestri skerðingu og fengu ekki neitt. Ég held að þarna sé ekki á ferðinni sú réttlætistilfinning sem menn hafa verið að reyna að lýsa í ræðuhöldum hér í dag og ætti að svífa yfir þegar menn eru að fást við mál eins og þetta. Ég verð nú að segja það alveg eins og er að mikið óskaplega hlýtur það að vera þreytandi að vera ráðherra í ríkisstjórn og skipa nefnd og að hún skuli sitja yfir málum eins og þessi nefnd hefur gert. Hvað í ósköpunum er að? Hefur nefndin kannski verið beðin um að skila málinu ekki af sér eða taka sér langan tíma? Eða fékk hún kannski engin fyrirmæli um það hvenær hún þyrfti að vera búin að ljúka við málið? Upphaflega töluðu menn um það að menn gætu valið um það til hvers þeir notuðu þessa peninga, hvort þeir mundu nota þá til þess að kaupa kvóta Hagræðingarsjóðs eða kaupa kvóta á almennum markaði. Til hvers benti það? Það benti auðvitað til þess að menn ætluðu sér að afgreiða málið fyrr en þetta. Ég held að ef menn eru með þá hugmynd að hvarfla frá þessu og ákveða það að standa ekki við þetta, þá eigi menn auðvitað að lýsa því skýrt yfir og mér þykir það ekki nóg þó að hæstv. fjmrh. lýsi því yfir að að hans mati eigi ekki að standa við þetta. Það hlýtur að þurfa skýrar yfirlýsingar.