Almannatryggingar

89. fundur
Þriðjudaginn 22. desember 1992, kl. 17:26:34 (4200)

     Svavar Gestsson :
    Virðulegi forseti. Í rauninni er það þannig að jafnvel þó að sæmilega sé stofnað til þeirra tillagna faglega eins og B-liðarins sem við vorum að greiða atkvæði um hér á undan, þá er útilokað að sleppa því reglugerðarvaldi í hendurnar á hæstv. ráðherra sem gert er ráð fyrir bæði í B-liðnum og C-liðnum í sambandi við lyfin þar sem gert er ráð fyrir því að heilbrrh. ákveði hvað lyf kosta gjörsamlega án þess að hann hafi neinar lögfestar viðmiðanir. Ég bendi á að ef þessi breyting verður samþykkt, þá er það í fimmta sinn í tíð núv. hæstv. heilbrrh. sem gerð er grundvallarbreyting á verðlagningu lyfja. Ég bendi líka á það að að mati hagfræðings Alþýðusambands Íslands mun þessi tillaga hafa það í för með sér eins og reglugerðardrög liggja fyrir og benda til að lyfjaverð til almennings hækki um u.þ.b. 60%. Ég bendi líka á að á bak við þessa tillögu er veruleg fagleg og fjárhagsleg óvissa samkvæmt þeim upplýsingum sem liggja fyrir. Ég tel því að það sé langskást miðað við allar aðstæður að reyna enn um sinn það kerfi sem hér hefur verið og hafna þessari tillögu og legg til að hún verði felld.