Skattamál

89. fundur
Þriðjudaginn 22. desember 1992, kl. 17:44:56 (4206)

     Ólafur Ragnar Grímsson :
    Virðulegi forseti. Í októbermánuði lagði Alþb. fram víðtækar tillögur um aðgerðir í efnahags- og atvinnumálum og lýsti yfir vilja sínum til þess að taka þátt í víðtæku samstarfi í þjóðfélaginu með ríkisstjórninni, með öðrum flokkum hér á Alþingi og með aðilum vinnumarkaðarins. Það kom síðan í ljós að Alþýðusamband Íslands, BSRB, Kennarasambandið og fleiri samtök launafólks og Vinnuveitendasambandið voru reiðubúin að taka þátt í þessu samstarfi. Aðrir stjórnarandstöðuflokkar hér á Alþingi lýstu líka vilja sínum til að taka þátt í þessu samstarfi. Ríkisstjórnin átti þess vegna einstakt tækifæri til þess að skapa hér víðtæka, pólitíska samstöðu í landinu um nauðsynlegar aðgerðir í efnahagsmálum. Því miður kaus ríkisstjórnin á einni helgi að hafna þeirri leið og hélt í staðinn inn á þá braut sem m.a. er mörkuð með því frv. sem hér er verið að greiða atkvæði um. Við 3. umr. er verið að lögfesta fyrsta frumvarpið sem ríkisstjórnin sendir frá sér sem einhvers konar stríðsyfirlýsingu gagnvart launafólkinu í landinu. Það hefur þegar haft í för með sér að kjarasamningum hefur verið sagt upp og strax í janúarmánuði stefnir í stórfelld átök í þjóðfélaginu í fyrsta skipti um áraraðir.
    Ég vona að ríkisstjórnin noti þinghléið og fyrstu vikur janúarmánaðar til þess að endurskoða þessa stefnu. Hún er ekki farsæl fyrir þjóðina og hún er reyndar heldur ekki farsæl fyrir ríkisstjórnina. Við munum greiða atkvæði gegn þessu frv. en við látum líka í ljósi þá von að á næstu vikum sjái menn að sér og séu reiðubúnir til að taka þátt í víðtæku, pólitísku samstarfi á nýju ári um nauðsynlegar og réttlátar aðgerðir. Ég segi nei.