Samningur um loðnustofninn á hafsvæðinu milli Íslands, Jan Mayen og Grænlands

90. fundur
Þriðjudaginn 22. desember 1992, kl. 19:17:17 (4228)

     Kristín Einarsdóttir :
    Frú forseti. Ég vil í upphafi máls míns taka það fram að ég styð það að Alþingi veiti ríkisstjórninni heimild til þess að staðfesta þennan samning sem var gerður í Kaupmannahöfn í maí í vor og hefði e.t.v. verið eðlilegra að koma fyrr með þetta mál til þingsins og mæla fyrir því alla vega fyrir einhverjum dögum þegar það kom fyrst fram. Það er mjög skrýtið að gera þetta svona á síðustu stundu en betra er seint en aldrei.
    Ég ætla ekki að hafa mörg orð um þáltill. en má þó til að gera athugasemd hér. Eins og fram kemur í athugasemdum við frv. á bls. 2 er ekki talin ástæða til þess að setja takmarkanir á veiðar grænlenskra skipa í íslenskri lögsögu þar sem Grænlendingar eiga engin skip sem stunda loðnuveiðar. Ég vil í því sambandi benda á að Grænland hefur selt Evrópubandalaginu hluta af sínum veiðiheimildum, loðnukvóta, en Evrópubandalagið hefur ekki getað veitt þessa loðnu undanfarin ár. Þess vegna hefur það fallið í hlut Íslendinga að veiða þessa loðnu að hluta eða öllu leyti sbr. 5. gr. þessa samnings en þar segir, með leyfi forseta:
    ,,Ef Noregur eða Grænland veiða ekki sína hlutdeild á tiltekinni vertíð skal Ísland leitast við að veiða það magn sem á vantar.``
    Það er því greinilegt að samkvæmt þessum samningi er Íslandi heimilt að veiða það magn sem á vantar en samkvæmt þeim fiskveiðisamningi sem hæstv. utanrrh., fyrir hönd ríkisstjórnarinnar, hefur gert við Evrópubandalagið er talað um að Ísland eigi að fá þessa loðnu í sinn hlut sem greiðslu fyrir 3.000 tonn af karfa og það er greinilegt af þessari þáltill. og allir þingmenn hljóta að sjá að þarna er um að ræða svokallaða pappírsloðnu þar sem Íslendingar geta samkvæmt þessum samningi hvort sem er veitt alla þá loðnu sem Evrópubandalagið hefur ekki getað veitt í grænlenskri lögsögu og hefur ekki gert undanfarin ár. Að öðru leyti styð ég þessa þáltill. og vænti þess að hún fái skjóta afgreiðslu hér á Alþingi.