Samningur um loðnustofninn á hafsvæðinu milli Íslands, Jan Mayen og Grænlands

90. fundur
Þriðjudaginn 22. desember 1992, kl. 19:26:43 (4231)


     Hjörleifur Guttormsson :
    Virðulegur forseti. Það var mikilvægt skref sem stigið var með samningi þriggja þjóða um skiptingu loðnustofnsins 1989. Hér er verið að endurnýja þann samning og læra eitthvað af reynslunni og ég styð það eindregið að hann verði staðfestur af þinginu. En jafnframt tek ég undir að það er áríðandi að Alþingi festi skilning sinn á samningsákvæðum sem nauðsynlegt kann að vera að skýra nánar af okkar hálfu og tek undir það sem sagt hefur verið þar að lútandi. Ég tel einkar mikilvægt að við göngum frá þessu máli hið fyrsta með þessum hætti, ekki síst í ljósi þess samnings sem stjórnvöld hafa gert við Evrópubandalagið og lagt fyrir þingið um tvíhliða samskipti varðandi fiskveiðimálefni milli Íslands og Evrópubandalagsins.
    Ég hef bent á það frá því að sá samningur var gerður fyrst af stjórnvalda hálfu í október 1991 að sú uppsetning, sem þar er að finna varðandi svonefndar gagnkvæmar veiðiheimildir eða sem kynntar voru á þeim tíma, stenst engan veginn efnislega. Þar er verið að semja um veiðar úr tveimur íslenskum stofnum, karfa og loðnu, og ekki er um gagnkvæmar veiðiheimildir að ræða svo sem ljóst má vera, m.a. af reynslu undanfarinna ára þar sem ekki hefur verið veidd nein loðna frá árinu 1986 að telja úr hlut Evrópubandalagsins sem þeir hafa keypt af Grænlendingum. Einnig var árin þar á undan um mjög óverulegar veiðar að ræða og í rauninni gefist upp af hálfu þeirra sem reyndu að nýta sér þennan hlut.
    Ég tek undir það sem sagt hefur verið varðandi spurninguna um það ef Grænlendingar færu að gera út skip til loðnuveiða eða að reynt væri að skrásetja þar skip og telja grænlensk, að um það gildi skýr ákvæði að hliðstætt því sem gildir þá gagnvart Norðmönnum að leyfa þyrfti til ef ætti að veiða innan íslensku lögsögunnar í skilningi þessa samnings. Ég vænti þess að frá þessu máli verði gengið mjög fljótlega og tel það dýrmætt að þessi samningur liggur hér fyrir nú.