Samningur um loðnustofninn á hafsvæðinu milli Íslands, Jan Mayen og Grænlands

91. fundur
Þriðjudaginn 22. desember 1992, kl. 20:05:30 (4239)

     Frsm. utanrmn. (Björn Bjarnason) :
    Frú forseti. Utanrmn. kom saman til fundar í hléi hér áðan og hefur nú gefið álit sitt á þskj. 573 um till. til þál. um samning milli Íslands, Noregs og Grænlands/Danmerkur um loðnustofninn á hafsvæðinu milli Íslands, Jan Mayen og Grænlands. Vil ég lesa þetta álit, með leyfi forseta:
    ,,Nefndin hefur fjallað um þingsályktunartillöguna sem felur í sér heimild til handa ríkisstjórninni að staðfesta fyrir Íslands hönd samning milli Íslands, Noregs og Grænlands/Danmerkur um loðnustofninn á hafsvæðinu milli Íslands, Jan Mayen og Grænlands sem undirritaður var í Kaupmannahöfn 25. júní 1992. Nefndin fékk á sinn fund um málið Jón Baldvin Hannibalsson utanrrh., Þorstein Pálsson sjútvrh. og Árna Kolbeinsson, ráðuneytisstjóra í sjútvrn.
    Nefndin ákvað að ræða málið frekar á næsta fundi sínum og fá þá greinargerð um túlkun á einstökum atriðum þess.
    Nefndin mælir með samþykkt tillögunnar með eftirfarandi breytingu:
    Í stað orðanna ,,18. maí 1992`` í lok tillgr. komi: 25. júní 1992.``
    Undir nál. rita Björn Bjarnason, Össur Skarphéðinsson, Steingrímur Hermannsson, Geir H. Haarde, Páll Pétursson, Lára Margrét Ragnarsdóttir, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, Ólafur Ragnar Grímsson og Árni R. Árnason.