Evrópskt efnahagssvæði

93. fundur
Þriðjudaginn 05. janúar 1993, kl. 13:18:55 (4285)

     Hjörleifur Guttormsson (um þingsköp) :
    Virðulegur forseti. Aðalforseti þingsins var ekki í forsetastóli í morgun þegar ég kvaddi mér hljóðs um þingsköp til þess að vekja athygli á því sem ég læt síðan koma fram í minnisblaði til þingmanna sem ég vænti að hafi komið á borð þingmanna. Ég tel rétt að lesa upp efni þessa minnisblaðs um ráðstefnu

stjórnarerindreka EB og EFTA, sbr. 129. gr. EES-samnings, með leyfi forseta:
    ,,Samkvæmt upplýsingum sem undirritaður aflaði sér frá framkvæmdastjórn EB í Brussel í morgun, er ekki til umræðu að haldin verði ráðstefna stjórnarerindreka (ríkjaráðstefna, diplomatic conference) um nýjan EES-samning í janúarmánuði. Spurningin um slíka ráðstefnu getur fyrst verið til umræðu EB megin á fundi utanríkisráðherra EB 1. febr. 1993 enda fái framkvæmdastjórn EB þar umboð aðildarríkjanna til að ganga til samningaviðræðna. Fyrst þá og að þessu skilyrði uppfylltu geta menn farið að ræða einhverja dagsetningu fyrir ráðstefnu stjórnarerindreka samkvæmt 129. gr. EES-samnings.
    Það er því rangt sem utanrrh. hefur haldið fram á Alþingi að nauðsynlegt sé að þingið afgreiði nú frv. til staðfestingar á EES-samningi vegna væntanlegrar ráðstefnu stjórnarerindreka í janúarmánuði. Þar fyrir utan er svo augljóst að EES-samningurinn frá 2. maí 1992 er ekki lengur marktækur og lög sem staðfestu aðild Íslands að slíkum samningi væru hrein markleysa.``
    Þetta er efni þessa minnisblaðs og það var efnislega það sem ég rakti og beindi orðum mínum til forseta í morgun að það væri nauðsynlegt að mínu mati að forusta þingsins, forseti og forsætisnefnd tækju þessi mál til athugunar í ljósi þess að staðan er verulega önnur en hæstv. utanrrh. hefur hér ítrekað látið að liggja við þingið í umræðum í desembermánuði og ég gæti fundið ýmsar tilvitnanir því til sönnunar.
    Ég hef ekki farið hér með neitt rangt mál í sambandi við þetta efni eins og hæstv. utanrrh. sem var ekki heldur hér kominn til þingfundar í morgun þegar ég kvaddi mér hljóðs um þingsköp. Ég fullyrti ekki neitt varðandi þetta annað en það að upplýsingar og staðhæfingar ráðherrans að þessu leyti eru rangar. Ég held að það sé nauðsynlegt --- ekki að munnhöggvast endilega við ráðherrann, það er ekki meginmálið --- að forusta þingsins skoði málið í ljósi þessara staðreynda og fari yfir málið í ljósi þess. Það er greinilega ekkert að marka það sem hæstv. utanrrh. ber hér ítrekað fram sem rök fyrir sinni málafylgju og auðvitað á þingið að skoða þetta sjálfstætt og eins og málin liggja.
    Sannleikurinn er sá að hvað sem líður embættismannafundum í Brussel eða annars staðar á vegum EB og EFTA þá eru það ekki þeir sem ráða úrslitum um það hvenær menn í raun geta farið að ræða dagsetningu fyrir þessa ríkjaráðstefnu, heldur er spurningin sú hvort framkvæmdastjórn EB fái yfirleitt umboð til samningaviðræðna sem þessari ráðstefnu stjórnarerindreka, eins og hún heitir samkvæmt þýðingu í 129. gr., er ætlað að reka smiðshöggið á að því er ráðherra utanríkismála staðhæfir hér nú. Þannig að þannig liggja málin og það er alveg dæmalaust, virðulegur forseti, að mönnum skuli vera haldið við þingstörf á þessum tíma til að ræða frv. til staðfestingar á lögum sem verða hrein markleysa ef samþykkt verða. Það er dæmalaust og ég skora á forustu þingsins að taka sig til og bera sig saman um þessi efni, hvað þá að ætla forseta lýðveldisins að staðfesta lög í stórmáli, lög sem aðeins væru hrein markleysa, ljóslega.