Evrópskt efnahagssvæði

93. fundur
Þriðjudaginn 05. janúar 1993, kl. 18:59:08 (4336)

     Hjörleifur Guttormsson (andsvar):
    Virðulegur forseti. Mér er nú fyrst að verða það ljóst þegar líður á þessa umræðu hversu gjörsamlega hefur mistekist hjá forustu Framsfl. að stilla saman í þessu stóra máli. Hér koma þingmenn flokksins einn af öðrum og tala úr tveimur heimum. Þeir tala í sína áttina hver. Margir mjög einarðlega gegn þessu máli, og þar finn ég í rauninni fullan samhljóm með þeim málflutningi. Hins vegar koma nokkrir hv. þm., og þeim fer fjölgandi, sem túlka mál með þeim hætti sem mátti heyra hjá hv. síðasta ræðumanni. Það munar í rauninni engu að hv. þm. kynni hér að hann ætli að greiða þessum samningi atkvæði sitt. (Gripið fram í.) Já, það þyrfti kannski ekki mikið annað en að hæstv. utanrrh. víki úr stólnum að þá væri hægt að styðja þetta mál, því efnislega var ræðan ein samfelld blessun með þessum áformum um þennan samning.
    Ég er satt að segja afar undrandi á því að þetta geti orðið niðurstaða þingmanna í flokki sem nýbúinn er að halda flokksþing, ganga þar samhljóða frá ályktun eins og flokksþing Framsfl. gerði með mjög skýrum fyrirvörum, rifjar upp fyrirvara miðstjórnar flokksins frá því í maíbyrjun og setur síðan viðbótarskilyrði vegna stjórnarskrárstöðu málsins, árekstur þessa samnings við stjórnarskrána, og orða það svo að flokksþingið beri virðingu, virðulegur forseti, ég er að vitna örstutt í ályktun flokksþings Framsfl.: ,,Flokksþingið ber virðingu fyrir íslensku stjórnarskránni og telur að túlka beri allan vafa henni í hag.``
    Síðan er hnykkt á því að það verði að fara fram breyting á íslensku stjórnarskránni áður en svona mál geti yfirleitt komið til afgreiðslu hér á þingi. Hvar eru þeir þingmenn staddir fáeinum vikum eftir þetta flokksþing sem samhljóða stóð þannig að máli og ganga hér þvert gegn þeim meginályktunum sem þar voru gerðar?