Evrópskt efnahagssvæði

94. fundur
Miðvikudaginn 06. janúar 1993, kl. 12:55:22 (4353)

     Hjörleifur Guttormsson (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Það er fróðlegt að heyra svar hæstv. forsrh. Ég þakka honum fyrir að bregðast við. Það liggur fyrir að bréfið hefur ekki verið sent. Bréfið liggur ekki efnislega fyrir skilst mér enn sem komið er. Ráðgert er hins vegar, ef samningur um EES verður afgreiddur frá Alþingi einhvern tímann, að senda þetta bréf. Ég hafði skilið það öðruvísi í áliti meiri hluta utanrmn. að slík ætti að verða málsmeðferðin og þvert á móti hafi verið hugur þeirra sem voru að kalla eftir þessu bréfi, því ég hygg að hugmyndin sé ekki komin frá forsrh. sjálfum heldur utan að, að reyna að fá lýst inn í þetta samhengi áður en til afgreiðslu kæmi á samningnum. Vegna þess að menn væru að velta fyrir sér hver staðan yrði ef þessi yrði þróunin. Mér sýnist að úr þessu verði ekki það huggunarbréf sem ég var að láta liggja að að sumir hv. þm. hefðu ætlað að fá með þessu erindi og hafa verið að gera því skóna að þetta geti runnið bærilega saman við að EES yrði slegið af vegna þess að Ísland stæði eitt eftir og við tæki tvíhliða samningur við Evópubandalagið. Um það hef ég þegar fjallað og tel það ekki þróun sem sé líkleg til að ganga upp í einu vetfangi eða eftir óskum okkar Íslendinga eina saman.
    Hæstv. forsrh. nefndi 6. gr. og dóma Evópubandalagsins og spurninguna hvort þeir eigi og verði að liggja fyrir þýddir. Ég vitnaði beint í ummæli viðkomandi hæstaréttarlögmanns í því sambandi og túlkaði málið ekkert umfram það. Ég studdi mitt mál við þá tilvitnun og skal ekki leggja á hana mat.
    Síðan að lokum, virðulegur forseti, varðandi mína afstöðu til ríkisstjórnar Steingríms Hermannssonar og þessa máls skal á það minnt að umræður um EES-samninginn voru ekki komnar af stað þegar sú ríkisstjórn var mynduð. Það lá ekkert fyrir um það að fall þeirrar ríkisstjórnar mundi stöðva þetta mál nema síður væri því m.a. höfðu talsmenn Sjálfstfl. og þáverandi formaður flokksins lýst því yfir að hann stæði heill að baki þeirra samningaviðræðna sem þá voru í gangi.