Evrópskt efnahagssvæði

94. fundur
Miðvikudaginn 06. janúar 1993, kl. 13:10:40 (4360)

     Hjörleifur Guttormsson (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Vegna afstöðu hæstv. utanrrh. til staðfestingar á lögum ef þetta mál verður að lögum og vísunar hans til staðfestingar af Finna hálfu og þjóðaratkvæðagreiðslu í Liechtenstein þá tel ég að það varði málið harla lítið og að hæstv. ráðherra ætti að hafa burði til að meta það mál sjálfstætt með tilliti til íslensku stjórnarskrárinnar og stöðu málsins. Þó Finnlandsforseti staðfesti lög sem höfðu verið samþykkt af hálfu finnska þingsins fyrir atkvæðagreiðsluna í Sviss þá kann að vera, ég hef ekki kannað það, að hann hafi þar verið að framfylgja lögbundnum stjórnarskrárbundnum ákvæðum. Ég held því að ekki þurfi að leggja neina djúpa merkingu í staðfestingu Finnlandsforseta á lögum sem finnski Ríkisdagurinn hafði afgreitt fyrir 6. des. 1992.
    Í öðru lagi varðandi kröfuna um lækkun á fjármagni til þróunarsjóðsins þá hefur Spánn getað haldið við sjónarmið sitt alveg burt séð frá því hvort Ísland hefur einhvern vilja í því efni eða ekki. Ég sé ekki að það breyti miklu um þá stöðu. Það hlýtur að vera opið eftir sem áður hjá ríkjum Evrópubandalagsins að standa á sínu. En ég sé ekki betur en að EFTA-ríkin séu í rauninni búin að fara fram á endurskoðun samningsins þó það liggi ekki formlega fyrir. Það breytir auðvitað engu hvort framkvæmdastjórn Evrópubandalagsins tekur undir það. Það er ekki hún sem er ákvarðandi aðili hinum megin, það eru hin einstöku ríki sem hafa það mál í hendi sinni og því er þetta allt í vindinum hjá hæstv. ráðherra. Í sambandi við stöðu málsins að það sé nauðsynlegt, virðulegur forseti, að hafa afstöðu til samnings sem er ekki frágenginn þá eru það náttúrlega rök sem hefðu stundum verið kennd við hunda, þ.e. að halda slíku fram að það breyti málinu gagnvart samningsstöðunni í þeim samningum sem þurfa að fara fram hvort Alþingi Íslendinga hefði afgreitt málið. Ég minni bara á að aðeins þrjú ríki Evrópubandalagsins hafa afgreitt gamla samninginn sem hér er verið að ræða. Sum hafa dregið málið með formlegum hætti til baka eins og Spánn og önnur bíða.