Evrópskt efnahagssvæði

94. fundur
Miðvikudaginn 06. janúar 1993, kl. 17:56:22 (4413)

     Hjörleifur Guttormsson :
    Virðulegi forseti. Sú grein frv. sem við greiðum hér atkvæði um kveður á um að það beri að skýra lög og reglur að svo miklu leyti sem við á til samræmis við EES-samninginn og þær reglur sem á honum byggja. Á bak við þessi ákvæði felst m.a. 6. gr. samningsins sem kveður á um það að með fyrirvara um þróun dómsúrlausna í framtíðinni ber við framkvæmd og beitingu ákvæða samnings þessa að túlka þau í samræmi við úrskurði dómstóls Evrópubandalaganna sem máli skipta. Það er verið að binda Íslendinga við að að túlka dómsúrlausnir í framtíðinni við úrskurði Evrópudómstólsins til þessa dags og auðvitað úrlausnir hans í framtíðinni ef við verðum aðilar að Evrópsku efnahagssvæði.
    Það er mikið safn dóma sem liggur þarna að baki. Ég tel að Alþingi hafi alls ekki með fullnægjandi hætti farið yfir þetta efni, enda liggur það ekki fyrir Alþingi í íslenskri þýðingu. Það hafa verið gefnir út úrdrættir, valdir af utanrrn., á einstökum dómum, svokallaðar reifanir. Við erum hér að fela ekki aðeins framkvæmdastjórn Evrópubandalagsins frumkvæði í lagasetningu heldur jafnframt að fela dómstóli Evrópubandalagsins forræði. Dómstóll Evrópubandalagsins kveður upp úrskurði sem varða Rómarsamninginn og það eru þeir úrskurðir sem við eigum að lúta.
    Ég tel þetta kannski eitt af alvarlegri ákvæðum þessa annars dapurlega máls og segi

nei.