Evrópskt efnahagssvæði

98. fundur
Laugardaginn 09. janúar 1993, kl. 11:21:56 (4551)

     Hjörleifur Guttormsson (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Mér finnst þetta meira en loðin afstaða sem hér er kynnt. Ástæðan fyrir því að hv. þm. í raun styður framgang þessa máls --- því það má auðvitað glögglega heyra að hann er efnislega á því að þetta mál eigi að ganga fram, hann ætlar ekki að bregða fæti fyrir það á Alþingi --- hún er sú að það verði að byggja einhverjar hugmyndir um tvíhliða viðræður við Evrópubandalagið sem enginn veit hvort upp verði teknar eða einhver staða verði til að taka upp, að þær eigi að byggja á þessu ferli, á innihaldi þessa máls eða því samrunaferli sem þessi samningur endurspeglar. Það er satt að segja hægt að bjóða mönnum margt, bæði á Alþingi og þeim sem hlýða á slíka röksemdafærslu. Hér er í rauninni verið að skrifa upp á þetta mál eins og það liggur fyrir af hálfu hv. þm. og jafnframt hefur hv. þm. kynnt þá afstöðu sína að ég best veit að hann sé á móti þeim tvíhliða samningi á sjávarútvegssviði sem er þó nátengt þessu máli og varðar málið og er óaðskiljanlegur hluti þess eins og Evrópubandalagið lítur til málsins. Samt ætlar hann að greiða götu þessa samnings í gegnum þingið en reyna síðan að spyrna eitthvað fæti gegn samningnum á sjávarútvegssviði sem er nátengdur þessu máli.