Evrópskt efnahagssvæði

98. fundur
Laugardaginn 09. janúar 1993, kl. 13:38:33 (4557)

     Hjörleifur Guttormsson (andsvar) :
    Virðurlegur forseti. Hæstv. umhvrh. er eitthvað ókyrr í sambandi við málið og það skil ég vel. Ég met það hins vegar við hæstv. umhvrh. að hann hefur sýnt ákveðinn vilja

til þess að bæta úr í krafti síns ráðuneytis og ráðherradóms og ég vil ekki taka af honum í þeim efnum. Ég vil styðja hann í þeim efnum sem og allt sem til heilla getur horft hér í íslenskum umhverfismálum. Það sem varðar hins vegar þennan samning og umhverfismálin er það kjarnaatriði að grunnurinn, fjórfrelsið, sem er samningsbundið með samningnum um EES, hefur forgang. Ákvæði þess hafa forgang gegn umhverfishagsmunum. Þar sem vikið er að umhverfismálum í þessum samningi, samningnum sjálfum, í aðfaraorðum hans, það hefur það veika stöðu sem og ákvæðið 73.--75. gr. samningsins að það lýtur í lægra haldi fyrir kröfunni um dreifingu á vörum og öðru því sem varðar fjórfrelsi. Það er þetta sem er áhyggjuefni allra þeirra sem skoða þessi mál hlutlægt. Og fram hjá því verður því miður ekki komist. Það snertir síðan annað efni að við Íslendingar sprettum úr spori óháð þessum samningi og bætum um og enginn sem bannar okkur það, að sjálfsögðu, og það á að vera verkefni umhvrh. að reyna að tryggja að svo verði. Það gildir jafnt um úrbætur í frárennslismálum, það varðar mengunarmál og annað þess háttar og síst af öllu skyldi ég lasta það sem reynt hefur að verið að gera gott á því sviði. En þetta meginatriði veldur áhyggjum umhverfisverndarfólks um alla Evrópu. Sú staðreynd, sem m.a. er dregin upp, leiddar að líkur í úttekt Evrópubandalagsins sjálfs, að loftmengun muni fara vaxandi sem nemur 10--20% vegna innri markaðarins til viðbótar við það sem ella kæmi fram. Þá niðurstöðu þekkir vafalaust hæstv. umhvrh. Hins vegar væri ágætt að hæstv. ráðherra upplýsti okkur um það hvort að gerð hefur verið úttekt á þeim kostnaði sem varðar umhverfisbætur hérlendis, sem leiða af samningnum, m.a. varðandi frárennslismál og aðrar þær úrbætur sem hann hefur tíundað í skýrslu sinni. Hann gæti vafalaust gert það hér í andsvari ef að það liggur fyrir.