Evrópskt efnahagssvæði

98. fundur
Laugardaginn 09. janúar 1993, kl. 18:08:59 (4583)

     Hjörleifur Guttormsson (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Margar sérkennilegar ræður hafa verið haldnar af þeim hópi á Alþingi sem er farið að kalla ,,hjásetuliðið``. Mér finnst þessi síðasta ræða taka öðrum fram í einkennilegum rökstuðningi við þá niðurstöðu að sitja hjá við málið.
    Hv. þm. tíundaði stuðning sinn lið fyrir lið við samninginn og gekk meira að segja svo langt að finna það samningnum til gildis að menn gætu komið upp á landið í þrjá mánuði og leitað sér að vinnu og borðað mat hérlendis á meðan og það hefði þjóðhagslegt gildi. Langt er nú seilst til lokunar. Í rauninni er það svo að eina atriðið sem hindrar hv. þm. í að segja já við samningnum og frv. til staðfestingar það er að það er ekki nógu trúverðug ríkisstjórn. Það er grundvallaratriði sem hefur verið umræðu fjötur um fót í landinu og fyrir ýmsa á Alþingi að líta ekki á þetta mál algerlega óháð því hver sæti við stjórnvölinn. Þetta er ekki mál einnar ríkisstjórnar. Þetta er mál framtíðar fyrir landið og ríkisstjórnir koma og fara þannig að það er afar einkennileg röksemdafærsla.
    Varðandi aðild t.d. að rannsókna- og þróunaráætlun og vísindastarfi þá ætti nú hv. þm. að kynna sér hvað búið er að gera og búið er að staðfesta og undirrita, ganga frá á milli Íslands og Evrópubandalagsins. Ætli það séu ekki tvíhliða samningar á sviði vísinda og tækni, rannókna, umhverfismála, menntamála, skólaáætlun o.s.frv. Og ástæðan fyrir því að það þarf að ganga inn í Evrópska efnahagssvæðið til þess að verða aðili að slíku samstarfi og slíkum áætlunum er sú að það tekur svo langan tíma að gera tvíhliða samninga. Var það ekki hugmynd Framsfl. að gera tvíhliða samning? Hér rekst hvað á annars horn og ég held að hv. þm. ætti nú að stíga skrefið til fulls úr því sem komið er.