Evrópskt efnahagssvæði

98. fundur
Laugardaginn 09. janúar 1993, kl. 19:32:14 (4599)

     Hjörleifur Guttormsson (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Það sem er deginum ljósara að það sem er að gerast hjá hv. þm. og ástæðan að hún kveður sér hér hljóðs við lok umræðunnar er einmitt þetta að hún þarf að bæta einni árásinni við á meiri hluta þingflokksins og hún gerir það með þessum sérkennilega hætti. Hún rökstuddi það hvers vegna hún væri í hjásetuliðinu. Hún sér EES og EB ýmislegt til foráttu en getur bara ekki sagt okkur úr lögum við EES og EB. Þarna getum við haft áhrif til góðs og ills, skrifaði ég eftir þingmanninum. Þetta er svo sem í samhljómi við nál. Þar er það ekki aðeins inngangan í EES sem er á dagskrá, þar er höfnin EB. Þar segir, virðulegur forseti:
    ,,Ef EB þróast aftur á móti þannig að almenningur í þessum ríkjum telji það viðunandi eigum við tveggja kosta völ. Um er að ræða tvíhliða samning um fjórfrelsið að frátöldum stofnanaþætti samningsins um EES eða að leggja inn umsókn um aðild og sjá hverju hún mundi skila.``
    Þetta er það sem þingmaðurinn hefur verið að segja bæði í nál. og löngu áður raunar og heldur áfram eftir að hún valt ofan af girðingunni sem hún sagði okkur frá hér á haustdögum.