Samningar við EB um fiskveiðimál

100. fundur
Þriðjudaginn 12. janúar 1993, kl. 14:28:19 (4684)

     Hjörleifur Guttormsson (andsvar) :
    Ja, ekki er nú, virðulegur forseti, mikið hald í þeim ís sem hæstv. ráðherra stendur á. Hann er margfallinn á því svelli.
    En í sambandi við mína afstöðu til þessa máls get ég upplýst hæstv. ráðherra um að á fundi í Evrópustefnunefnd þann 23. febr. 1989, í aðdraganda heimsóknar þáv. sjútvrh. á fund Evrópubandalagsins, mótmælti ég mjög ákveðið ásamt fleiri nefndarmönnum öllum hugmyndum um að farið væri að ræða við Evrópubandalagið um skipti á veiðiheimildum, eins og þeir voru að gera kröfur um og hafa gert kröfur um. Það er sú afstaða sem ég hef haft til þessa máls og jafngott að rifja það upp hér vegna ummæla hæstv. ráðherra. Alþb. átti ekki þátt í þeim viðræðum sem þarna var um að ræða, hvað þá að þingflokkur okkar hafi lagt einhverja blessun yfir þær.