Atvinnuþróun í Mývatnssveit

107. fundur
Fimmtudaginn 11. febrúar 1993, kl. 13:07:52 (4977)

     Hjörleifur Guttormsson (um atkvæðagreiðslu) :
    Virðulegur forseti. Þar sem ekki var setinn bekkurinn eins og nú við umræðu um þetta mál í gær þegar ég rökstuddi þá tillögu mína að vísa þessari þáltill. til umhvn. vil ég nefna helstu rök fyrir því. Í þessari tillögu er gert ráð fyrir að úttekt fari fram á þróunarforsendum og möguleikum á nýsköpun í atvinnulífi í Mývatnssveit er falli að markmiðum um náttúruvernd á svæðinu.
    Mývatnssveit og Laxársvæðið eru undir sérstakri löggjöf, lögum nr. 36/1974, sem eru í gildi. Þar er kveðið á um þróunarforsendur og stöðu náttúruverndar á svæðinu. Á engu svæði utan þjóðgarða á Íslandi eru jafnskýr ákvæði um að náttúruvernd eigi að vera það markmið sem tekið sé tillit til við öll umsvif í sveitinni. Náttúruverndarráð hefur stöðvunarvald varðandi aðgerðir og skipulagsmál á þessu svæði. Með vísan til þess hef ég lagt til að tillagan fari til umhvn. Umhvn. er auk þess að fjalla um mál sem snerta Mývatn og kísilgúrnám á botni Mývatns. Mér finnst eðlilegt að þessi nefnd fjalli um það. Hér háttar til með öðrum hætti en almennt gerist í landinu. Vegna þess hef ég lagt til að vísa tillögunni til umhvn. Það kemur satt að segja talsvert á óvart að hæstv. umhvrh. skuli ganga fram fyrir skjöldu í málflutningi í öðru.