Atvinnuþróun í Mývatnssveit

107. fundur
Fimmtudaginn 11. febrúar 1993, kl. 13:34:12 (4988)


     Hjörleifur Guttormsson (um atkvæðagreiðslu) :
    Virðulegur forseti. Hluti þeirra sem hafa talað um atkvæðagreiðslu vegna þessa máls hefur kosið að horfa fram hjá því að sérstök löggjöf og einstæð í lagasafni Íslands gildir um Mývatns- og Laxársvæðið. Löggjöf sem Eysteinn Jónsson á sínum tíma beitti sér fyrir og samþykkt var á þjóðhátíðarárinu 1974.
    Í 3. gr. þessara laga segir m.a., virðulegur forseti:
    ,,Á landssvæði því, sem um getur í 2. gr. [þ.e. Mývatnssvæðið, Reykjahlíðarhreppur og svæðið meðfram Laxá], er hvers konar mannvirkjagerð og jarðrask óheimilt, nema leyfi Náttúruverndarráðs komi til.``
    Í 5. gr. þessarar löggjafar segir:
    ,,Menntmrn. [sem löggjöfin heyrði undir þegar hún var sett] setur, að fengnum tillögum heilbrrn. og Náttúruverndarráðs, reglugerð um varnir gegn hvers konar mengun svæðis þess er lögin taka til og skal þar m.a. kveðið á um sérstakar mengunarvarnir Kísiliðjunnar við Mývatn. Í reglugerðinni skal enn fremur kveðið á um verndun lífríkis á svæðinu og skynsamlega nýtingu þess, svo sem um takmörkun á aðgangi ferðamanna að tilteknum stöðum á svæðinu.``
    Ég held að þetta sýni með alveg ótvíræðum hætti undir hvaða ákvæði meðferð mála fellur á þessu svæði. Það er menntmrn. sem setur reglugerð á grundvelli þessara laga upphaflega. Nú heyrir þessi löggjöf undir umhvrn. Þetta er því á verksviði þess og þeim mun sérkennilegra er að sjálfsögðu málafylgja hæstv. umhvrh. í þessu máli. Ég á satt að segja fá orð til þess að gefa henni einkunn eins og vert væri.