Afstaða Spánar til EES-samningsins

124. fundur
Þriðjudaginn 09. mars 1993, kl. 13:49:08 (5786)

     Hjörleifur Guttormsson :
    Virðulegur forseti. Ég hugðist beina máli mínu til hæstv. forsrh., hann er kominn í þingsal aftur. Efnið varðar þann fund sem haldinn var í ráðherraráði Evrópubandalagsins í gær þar sem samþykkt var viðbótarbókun við samninginn um Evrópskt efnahagssvæði. En síðan kom fram að loknum ráðherrafundinum af hálfu utanríkisráðherra Spánverja að hann teldi að ekki gæfist svigrúm til þess að leggja samninginn fyrir þing Spánar til staðfestingar fyrir 1. júlí nk. og að líkindum ekki fyrr en að loknum kosningum þar í landi á komandi hausti, í október nk. Utanríkisráðherra Spánar tengir þetta mál við staðfestingu á Maastricht-samkomulaginu innan Evrópubandalagsins í tilkynningu eða yfirlýsingu sem hann lagði fram á sérstökum fréttamannafundi.
    Nú er það svo að á þingi Norðurlandaráðs þar sem við forsrh. vorum staddir í síðustu viku, þá spurði ég utanrrh. Svíþjóðar sérstaklega um þetta efni, hvort hann teldi --- það var Ulf Dinkelspiel, utanríkisviðskiptaráðherra Svía --- að það væri samhengi á milli afgreiðslu á EES samningnum af hálfu Evrópubandalagsríkjanna og meðferðar Maastricht-samkomulagsins innan Evrópubandalagsins. Tilefni þess að ég spurði um þetta var að ég varð var við það á þingi Norðurlandaráðs og í tengslum við það að viss ótti væri upp um að þetta gæti komið upp. (Forseti hringir.) En sænski ráðherrann aftók það með öllu í sínu svari eða sagði að sér vitanlega væru engin slík tengsl á milli og hann teldi ekki að það væri ástæða til að ætla að þau yrðu upp tekin. (Forseti hringir.) Nú vil ég spyrja hæstv. forsrh., virðulegur forseti, hvert sé mat hans á þessari stöðu og hvort hann telji ekki tímabært að hætta þessu samfloti sem þarna er stefnt að innan Evrópsks efnahagssvæðis og snúa sér að því að semja með beinum hætti um hagsmuni Íslendinga við Evrópubandalagið.