Hollustuhættir og heilbrigðiseftirlit

125. fundur
Miðvikudaginn 10. mars 1993, kl. 13:54:47 (5853)

     Hjörleifur Guttormsson :
    Virðulegur forseti. Það frv. sem hæstv. umhvrh. hefur mælt fyrir um breytingu á lögum um hollustuhætti og heilbrigðiseftirlit vegna samningsins um Evrópska efnahagssvæðið, eins og það heitir í fyrirsögn, er allrar athygli vert hvað efnisinnihald snertir þar sem verið er að taka þar á málum sem nauðsynlegt er að tekið sé á af okkar hálfu að því er varðar hreinlætismálefni, varnir gegn mengun, gegn áhættu af atvinnurekstri og fjölmargt fleira. Ég tel að um þessi efni eigi Alþingi að fjalla alveg óháð því hvað verður um samning um Evrópska efnahagssvæðið og engin ástæða til þess að tengja þetta mál sérstaklega þeim samningi þó að vegna okkar hagsmuna í sambandi við framleiðslu og markaðssetningu á okkar framleiðsluvörum geti verið nauðsyn vegna krafna sem móttakendur á íslenskum vörum setja að standa við ákveðin skilyrði sem sett eru í reglum aðila eins og Evrópubandalagsins.
    Ég tel sjálfsagt að lögfesta þau ákvæði sem hér er verið að gera tillögur um að yfirveguðu og athuguðu máli á vegum Alþingis algjörlega óháð því hvað verður um samninginn um Evrópskt efnahagssvæði en eins og hv. þm. þekkja er sá samningur enn ekki frágenginn, ekki staðfestur og þar með ekki kominn í gildi og enn ríkir óvissa um afdrif hans.
    Ég hvet til þess að alveg óháð því þá verði um þetta mál fjallað á Alþingi og sett nútímaleg löggjöf út frá eðlilegum og í raun sjálfsögðum kröfum um mengunarvarnir, eftirlit og öryggisþætti sem snerta hollustu og heilbrigði. Við eigum að taka á slíkum málum með myndarbrag því það sýnir sig að þó hægt sé að syndga gagnvart umhverfinu um ákveðinn tíma án þess að það komi í bakið á mönnum, eins og

mætti orða það, án þess að það valdi mönnum með beinum hætti óþægindum eða tilkostnaði, þá stendur slík dýrð ekki lengi heldur kemur fljótlega að því að náttúran gerir vart við sig og slær til baka þegar gengið er yfir eðlileg þolmörk í sambandi við umhverfið. Þetta gildir einnig varðandi heilbrigði fólks og áhrif á heilsufar og heilbrigði. Það leiðir til kostnaðarauka og óhollustu, sjúkdóma og styttri ævialdurs í ýmsum tilvikum.
    Ég skal ekki leggja mat hér og nú á einstök ákvæði þessa frv. Ég hef ekki farið ofan í saumana á því. Ég á sæti í umhvn. þingsins sem mun fá þetta mál til meðferðar og leggja mig þar fram um það að meta einstök ákvæði frv. og þörf á hugsanlegum breytingum frá því sem hér er lagt til. Vissulega er hér um afar kostnaðarsamar breytingar að ræða í mörgum tilvikum, mælt á okkar kvarða í krónum talið, geri ég ráð fyrir. Sá sem síðast talaði um málið giskaði á 6 til 7 milljarða kr. í beinum útgjöldum og er þá engan veginn allt talið. Á það vil ég ekki leggja mat en hæstv. ráðherra hefur kannski eitthvað meira um málið að segja en fram kom í framsögu sem og um þau tímamörk ef hann vill skoða málið út frá samningnum um Evrópskt efnahagssvæði, eins og hér var spurt um áðan.
    Ég held það sé að ýmsu að hyggja til hliðar við þetta mál en þó tengt því. Það er möguleiki okkar á því að fylgjast með og standa við framkvæmd mála af þessum toga, ekki aðeins vegna fjárhagslegra þátta og tilkostnaðar heldur einnig að tryggja eftirlit með því að við sett lögákveðin fyrirmæli sé staðið. Í þeim efnum skortir allverulega á að ríki og sveitarfélög hafi búið svo um hnútana í sambandi við starfslið til að vinna að þessum málum og aðbúnaði að þeim stofnunum sem við höfum falið þar verkefni að það vantar talsvert á, svo ekki sé dýpra í árinni tekið, að þessir aðilar geti rækt þegar lögákveðið hlutverk, hvað þá tekið á sig mjög auknar skuldbindingar í þeim efnum. Á þetta er auðvitað nauðsynlegt að litið sé af raunsæi.
    Það er fátt ömurlegra en að það sé verið að setja lög á Alþingi um skyldur af opinberri hálfu og af hálfu sveitarfélaga sem síðan er ekki staðið við vegna þess að að því er ríkisvaldið snertir er ekki séð fyrir nauðsynlegum lágmarksfjárveitingum til þess að framfylgja lögunum. Þar á meðal eftirlitshlutverkinu sem þau taka til. Ég er hér m.a. með í huga Hollustuvernd ríkisins sem er hvað snertir mannafla og sumpart búnað mjög vanbúin í rauninni að rækja það hlutverk sem henni er ætlað og það er sannarlega tilfinnanlegt og nauðsynlegt að á þau efni sé litið með öðrum hætti en gert hefur verið.
    Ég er eindregið þeirrar skoðunar og vænti að það sjónarmið eigi vaxandi fylgi að fagna að við framleiðslustarfsemi í landinu og við íbúabyggð og það sem af henni leiðir beri að taka með í reikninginn þann kostnað sem því fylgir að tryggja að umhverfi hljóti ekki skaða af. Það er hið eina gilda sjónarmið í þeim efnum og þar mega menn ekki láta svokölluð samkeppnissjónarmið varðandi framleiðslu keyra sig niður og hrekja sig frá því að standa við slík markmið eins og fjölmörg dæmi eru vissulega um og eins og liggur raunar fyrir í samningnum, sem hér er verið að taka mið af, um Evrópskt efnahagssvæði, þar sem þannig er kveðið á að frjálst vöruflæði skuli vera umhverfinu æðra og þeim gildum sem þar að lúta. Það er aldeilis hörmulegt til þess að vita að á sama tíma og það liggur fyrir hvað fylgir nútímaframleiðslustarfsemi í iðnaði og mörgu sem lýtur að nútímalífi, og í orði er tekið undir það sjónarmið að menn verða að tryggja sjálfbæra þróun, þá er gengið svo frá hnútunum í sambandi við viðskiptaþáttinn að umhverfissjónarmiðin eru í öðru sæti ef ekki á þriðja farrými. Þessu verður auðvitað að snúa við.
    Ef menn eru að binda sig í alþjóðlegum samtökum og samskiptum varðandi viðskiptamál og halda þeirri stefnu fram, sem vissulega er umræðuverð, sem hefur rutt sér til rúms á síðari áratugum um frjáls og óhindruð viðskipti og samningurinn um Evrópskt efnahagssvæði á að fylgja því markmiði sem og samningar sem ganga undir nafninu GATT sem hafa verið gerðir og á að færa út --- ég ætla ekki að taka það efni til sérstakrar umræðu --- og menn ætla að fylgja fram þeirri stefnu til hins ýtrasta og meina eitthvað með aðgát varðandi umhverfið og sjálfbæra þróun samfélaganna þá verða menn að láta umhverfisgildin vera ráðandi fram yfir frelsi vörudreifingar og nýtingu auðlinda, ágang á auðlindir. Því verður að snúa við. Og m.a. vegna þess hvernig um hnútana er búið í EES-samningi að því leyti almennt séð, ég er ekki að tala um einstakar tilskipanir, þá er sá samningur ekki nútímalegur samningur og ekki samningur sem leiðir til heilla fyrir þá sem ætla sér að bindast honum í víðara samhengi fremur en sú tilhögun framleiðslustarfseminnar sem gerir ráð fyrir því að efnislegur vöxtur verði að ganga fram, sé forsenda framfara, forsenda fullrar atvinnu o.s.frv. Efnislegur vöxtur sem leiðir til þess á lengri eða skemmri tíma að menn kaffæra sig í úrganginum, í mengun. Því þó menn fari að hirða betur sorp og draga úr mengun frá einstökum atvinnurekstri þá er einu sinni eðli framleiðslustarfsemi og orkunotkunar það að því fylgir mengun.
    Við skulum gefa því gaum að það eru fleiri sem óska eftir því að lyfta lífskjörum sínum en fólk á Vesturlöndum. Það eru þeir 2 / 3 eða 3 / 4 hlutar mannkyns sem búa við hin bágustu lífskjör og mikill hluti þar á fátæktarmörkum og undir þeim. Hvaða möguleika halda menn að þeir milljarðar hafi til þess að ná þeim lífskjörum eða lífsháttum, væri réttara að segja, sem tíðkast á Vesturlöndum? Hvar haldið þið að við værum þá stödd? Hvert væri svigrúmið fyrir sjálfbæra þróun ef menn ætla þjóðunum að koma undir sig fótum efnalega eitthvað í áttina við það sem við þekkjum á Vesturlöndum? Það er ekkert svigrúm til slíks. Jafnvel þó að menn ástundi hinar fyllstu mengunarvarnir sem menn hafa tæknilega völ á og kosti því til sem þarf vegna þess að menn ráða ekki við það. Það fylgir allri framleiðslustarfsemi mengun, allri orkunotkun fylgir mengun, sem er farin að hafa áhrif á almenn lífsskilyrði á jörðunni.
    Samt hljótum við að bregðast við út frá nærtækum möguleikum til þess að draga úr og á þeim forsendum tek ég undir þau sjónarmið sem liggja að baki þessu frv. varðandi úrbætur og mun fjalla um málið í þingnefnd út frá því sjónarhorni.