Þingmannanefnd Fríverslunarsamtaka Evrópu 1992

127. fundur
Fimmtudaginn 11. mars 1993, kl. 14:30:15 (5974)

     Hjörleifur Guttormsson (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. fyrir greið svör til að svala forvitni minni um þessi efni sem óljós eru. En eftir þær upplýsingar sem hér komu fram þá liggur það fyrir að fullkomin óvissa er um frekara samstarf þingmanna á vettvangi EFTA. Það þykja mér nokkur tíðindi vegna þess að þau samtök eru vissulega áfram við lýði og ekki hefur heyrst um að það ætti að slá þau af. Þau eiga samskipti í austurátt og víðar og er kannski möguleiki að halda uppi víðara samstarfi í sambandi við fríverslunarmál í gegnum þau samtök heldur en gefst innan Evrópsks efnahagssvæðis ef af því verður. Ég vil hvetja þá þingmenn sem eru í EFTA-nefndinni nú til þess að taka þetta mál til umræðu hið fyrsta til þess að það verði ljóst í hvað stefnir í þessum efnum. Í rauninni er það mjög illt til þess að vita sem hér var upplýst í sambandi við það hvernig keyrt er yfir Ísland í sambandi við þetta EES-samstarf og boðar það út af fyrir sig ekki gott.
    Það var fróðlegt að heyra um fundarefni frá fundi kengúruhópsins á vordögum, en hv. þm. sagði ekkert um þátttöku Íslands í þeirri dagskrá. Eru einhverjir Íslendingar sem taka þátt í þessum trúboðssamkomum um landvinninga Evrópubandalagsins í norðurátt og hvernig tengist Ísland ráðstefnuhaldi þessara samtaka, The Movement for Free Movement?